135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

umferðarlög.

579. mál
[22:55]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, með síðari breytingum. Nefndin fékk ýmsa gesti á sinn fund.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að leggja allt að 30.000 kr. gjald á þá sem vanrækja að færa ökutæki til skoðunar á réttum tíma og að breytingin taki gildi 1. janúar 2009.

Á fundum nefndarinnar kom fram að það er mikill fjöldi óskoðaðra bifreiða í landinu, 10% af heildarfjölda ökutækja í landinu eða 25.000 bílar alls. Það hefur skort úrræði til þess að fylgja því eftir að eigendur ökutækja sinni lögboðinni skyldu sinni um að færa ökutæki til skoðunar. Við í nefndinni teljum að með breytingunum sem lagðar eru til verði eftirlit lögreglu með óskoðuðum ökutækjum í umferð mun skilvirkara og að það verði til að auka öryggi vegfarenda í umferðinni.

Við leggjum hins vegar til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru til einföldunar og til þess fallnar að gera greinar þess skýrari. Þannig leggjum við til að tilgreint verði að með skoðun ökutækis sé bæði átt við almenna skoðun og endurskoðun. Ég ætla svo sem ekki að telja upp hvaða liðir það eru sem breytast við það.

Við leggjum einnig til nokkrar efnisbreytingar á frumvarpinu sem varða lögveð í 3. mgr. 1. gr. en fyrir nefndinni kom fram ábending um að ekki væri rétt að lögveð félli niður við eigendaskipti þar sem nýr eigandi hlyti að kynna sér hvort skoðun hefði farið fram og hvort gjald hefði verið lagt á en þær upplýsingar liggja fyrir í ökutækjaskrá með sama hætti og upplýsingar um stöðu bifreiðaskatta.

Það má kannski segja að stærst af þeim breytingum sem nefndin leggur til sé að gildistöku frumvarpsins verði flýtt og miðist hún við 1. október 2008 í stað 1. janúar 2009. Við leggjum hins vegar áherslu að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér verði kynntar mjög rækilega.