135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

umferðarlög.

579. mál
[23:02]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tel mikla ástæðu til þess að fagna ákvörðun og tillögu um að setja sérstakt gjald á þá sem ekki koma með bíl sinn til skoðunar. Ég fagna því sérstaklega að til stendur að kalla með virkum hætti alla eigendur slíkra ökutækja til skoðunar. Ég vil lýsa stuðningi við breytingartillögur samgöngunefndar um að gildistaka þessa frumvarps verði 1. október nk. en ekki 1. janúar á næsta ári eins og til stóð og ég gagnrýndi reyndar harðlega við 1. umr. málsins fyrr í vetur.

Ég hlýt að lýsa vonbrigðum með að menn treysta sér ekki til þess að fara fyrr af stað með þetta vegna þess að sumarið fer í hönd og mikill umferðartími og það verður ekki hjá því litið, frú forseti, að það eru á milli 25 og 30 þúsund óskráð ökutæki og óskoðuð ökutæki á götum og vegum hér á landi. Þetta er óhugnanlega há tala, hryllingssaga í raun því að þessi ökutæki eru ógnun við umferðaröryggi allra landsmanna. Í svari samgönguráðherra við fyrirspurn minni fyrr í vetur kom fram að tíu óskoðaðir bílar komu við sögu í banaslysum á árunum 2003–2007.

Ég vil vekja athygli á því að á árinu 2004 var sett heimild til að setja á gjald í stað sektarákvæðis sem fyrir var í umferðarlögum. Umrætt gjald hefur hins vegar aldrei verið innheimt en ég hlýt að nota þetta tækifæri til þess að hvetja lögregluyfirvöld til þess að innheimta það fram að gildistöku þessara laga 1. október nk. vegna þess að það getur munað mannslífi að taka einn slíkan bíl úr umferð.

Frú forseti. Það er fleira óskoðað en bílar. Það er eftirtektarvert að einmitt í dag skuli lagt fyrir þingið svar samgönguráðherra við fyrirspurn minni um óskoðaða eftir- og tengivagna. Þar er á ferð enn ein hryllingssagan. Svarið leiðir í ljós að í landinu eru nú um 16.500 hjólhýsi, tjaldvagnar og fellihýsi og húsbílar plús einir 11.000 traktorar og ótalinn en vaxandi fjöldi eftirvagna, einkum kerra sem eru flestar yfir 750 kg á þyngd. Slíkar kerrur eru ekki einu sinni skráningarskyldar hvað þá skoðunarskyldar. Hjólhýsi, tjaldvagnar og fellihýsi eru að vísu skráningarskyld en þau eru ekki skoðunarskyld. Þetta þýðir að þau farartæki sem ég hef hér nefnt geta verið í umferð án þess að vitað sé um ástand þeirra, án þess að vitað sé um ástand öryggisbúnaðar svo sem tengibúnaðar, hjólabúnaðar eða hemlabúnaðar, enda kemur á daginn, frú forseti, í svari ráðherra að fellihýsi, tjaldvagnar og húsvagnar hafa tengst umferðarslysum í 135 tilfellum sl. fimm ár. Sem betur fer eru þetta flestallt óhöpp án meiðsla eða 117. Slys sem skráð eru með litlum meiðslum eru 15, slys með alvarlegum afleiðingum tvö og eitt banaslys.

Þetta er mjög alvarlegt ástand og í svari ráðherra kemur fram að rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur hvatt til þess að þessi farartæki verði gerð skoðunarskyld og í júlí á síðasta ári gaf út nefndin svokallaða varnaðarskýrslu vegna eftirvagna og tengitækja. Þetta segir mér að þetta mál hafi verið til athugunar í ráðuneytinu núna í tæpt ár. Í svari sínu tekur ráðherra undir það að brýnt sé að koma þessum málum í viðunandi horf, ekki síst vegna þess að tölur sýna að alvarleg umferðarslys og banaslys hafa tengst eftirvögnum og tengitækjum.

„Í ráðuneytinu,“ segir í svarinu, „er nú unnið að mótun reglna um skráningu og skoðun eftirvagna og tengivagna og þá verður einnig hugað að því að gera kerrur sem eru yfir 750 kg að þyngd skráningarskyldar.“

Frú forseti. Nú fer sumarið í hönd. Til viðbótar við þá 25–30 þúsund bíla sem eru óskoðaðir í landinu, eins og ég sagði áðan, leggja nú bráðum af stað út á vegina 16.500 hjólhýsi, tjaldvagnar og fellihýsi, húsbifreiðar. Vonandi er flest af þessum tækjum í góðu lagi og það er ástæða til þess að ætla að það þurfi ekki að vera svo slæmt ástand á þeim vegna þess að þetta eru tiltölulega nýlegir bílar. Það kemur fram í svari ráðherrans að á undanförnum fimm árum hefur þessum farartækjum fjölgað um 7.000 og við vitum að innflutningur þeirra hefur farið vaxandi kannski allt fram að gengisfallinu sem varð nú í mars sl., þannig að þess má vænta að þetta séu tiltölulega nýleg tæki. Það er samt sem áður full ástæða til þess að kalla þessi tæki inn til skoðunar og leggja meiri áherslu á skoðun þeirra farartækja sem eru eldri en önnur og einnig þeirra sem eru í stöðugri og mikilli notkun.

Ég vil, frú forseti, nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á svari ráðherra við fyrirspurn minni um ástand og skoðunarskyldu þessara eftir- eða aftanívagna, eins og almennt er sagt. Ég tel að þetta séu mjög alvarlegar upplýsingar og ég vil hvetja hæstv. samgönguráðherra og samgöngunefnd til þess að fylgja þessum málum, bæði hvað varðar þessi óskoðuðu ökutæki, þ.e. bílana, eftir, en einnig að ýta fast á eftir því að það dragist ekki lengur að gera þessa aftanívagna skoðunarskylda.