135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[23:12]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er komin til 2. umr. frumvarp til laga um Landeyjahöfn sem hefur verið til meðferðar í samgöngunefnd og eins og fram kom hjá hv. formanni samgöngunefndar þá skrifa allir nefndarmenn í samgöngunefnd undir nefndarálitið sameiginlega og leggja til að frumvarpið verði samþykkt. En ég hef þó fyrirvara í málinu á nefndarálitinu og langar til þess að gera grein fyrir honum. Eins og fram kom í 1. umr. þá er hér nokkuð sérstakt mál á ferðinni því að hér er verið að koma á laggirnar ríkishöfn, eins konar landshöfn en almenna reglan er sú samkvæmt hafnalögum að hafnir landsins eru nánast allar ef ekki allar reknar af sveitarfélögunum.

Ástæða þess að þessi leið er farin er, eins og kemur stuttlega fram í nefndarálitinu, að það hefur ekki verið samkomulag á milli sveitarfélaganna, þ.e. Rangárþings eystra þar sem höfnin verður staðsett, og Vestmannaeyjabæjar, um það hvernig reka eigi höfnina. En höfnin er auðvitað hugsuð sem ferjuhöfn til að tryggja samgöngur við Vestmannaeyjar.

Eðlilegast hefði verið, frá mínum bæjardyrum séð, að um starfrækt hefði verið hafnasamlag en eftir því sem við fáum best séð þá var ekki samkomulag um það á milli sveitarfélaganna. Það er auðvitað miður.

Síðan komu fram athugasemdir og undirskriftasöfnun frá íbúum í Vestmannaeyjum þar sem þeir lögðust gegn þessari framkvæmd. Það kom okkur mörgum býsna mikið á óvart vegna þess að eins og málið hafði verið kynnt og við höfðum skilið það þá var hér fyrst og fremst um að ræða aðgerð til þess að treysta samgöngur milli lands og Eyja. Vissulega eru ferjusiglingar þjóðbrautin á milli lands og Eyja og þess vegna er mikilvægt að vel sé staðið að þeim og þær séu öflugar og traustar.

Ég gat þess einnig í 1. umr. þegar málið var til umfjöllunar í aðdraganda alþingiskosninganna síðastliðið vor þá var það afstaða frambjóðenda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvað varðar samgöngumálin til Vestmannaeyja að hugleiða í fyrsta lagi betur en gert hafði verið möguleika á jarðgöngum. Þó að það væri vissulega ljóst að það væri fjarlægur möguleiki þá var það leið sem við vildum láta skoða. En við vildum umfram allt treysta samgöngur til Vestmannaeyja með bættu áætlunarflugi og með afkastameiri ferju á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Þetta töldum við að ættu að vera forgangsverkefni varðandi samgöngur til Eyja. Síðan kæmu aðrar lausnir eins og Landeyjahöfn þar á eftir.

Nú liggur það fyrir að þetta er sú leið sem samgönguyfirvöld, samgönguráðuneytið, samgönguráðherra og Siglingastofnun hafa talið ákjósanlegasta og við höfum farið ítarlega yfir þetta á vettvangi nefndarinnar og fengið góða kynningu á málinu frá Siglingastofnun. Það hafa vissulega verið uppi efasemdir m.a. af hálfu skipstjórnarmanna um að þetta væri góð aðgerð. Skipstjórnarmenn hafa sagt að þeir hafi efasemdir um að þeir geti siglt inn í þessa höfn með farþega vegna þess hvernig þarna háttar til landfræðilega.

En þarna verðum við auðvitað að treysta á sérfræðinga okkar. Ég hef sannfæringu fyrir því að þarna verði tryggilega gengið frá varðandi öryggismál og sérfræðingar okkar á Siglingastofnun hafa fullvissað nefndarmenn um það þótt auðvitað verði aldrei hægt að segja til um það með 100% vissu. Náttúruöflin eru auðvitað óútreiknanleg þarna eins og annars staðar.

Miðað við þá stöðu sem málið er í núna þá held ég að eðlilegt sé og rétt að styðja þetta mál eins og það liggur fyrir þótt við hefðum gjarnan viljað skoða aðra kosti betur og jafnvel hefðu ýmsir aðrir kostir komið betur til álita að okkar mati.

Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu sem hér fór fram síðast um umhverfisleg áhrif þessara framkvæmda og eins af því að draga umferðina frá Vestmannaeyjum til lands — sem að mestu leyti fer til höfuðborgarsvæðisins, það held ég að ég geti fullyrt — í Landeyjahöfn frá Þorlákshöfn með þeim viðbótarakstri sem það hefur í för með sér. Það liggur svo sem ekkert fyrir um það hver heildar- eða nettóumhverfisáhrifin eru af því á þessari leið.

Það er eitt atriði sem ég hef rekið augun í eftir að málið var afgreitt í nefndinni og ég vil vekja athygli á hér. Ég tel nauðsynlegt áður en málið verður afgreitt við 3. umr. að tekið verði á því. Í 3. gr. frumvarpsins um eignarhald og rekstur hafnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Landeyjahöfn er að fullu í eigu íslenska ríkisins. Siglingastofnun Íslands hefur umsjón með byggingu og rekstri Landeyjahafnar, ber ábyrgð á rekstri hennar og fer með verkefni hafnarstjórnar samkvæmt hafnalögum.“

Síðar í 8. gr. segir:

„Þar sem lögum þessum sleppir gilda ákvæði hafnalaga, nr. 61/2003, eftir því sem við á.“

Samkvæmt þessu frumvarpi er Siglingastofnun Íslands falið hlutverk hafnarstjórnar. Þegar þessum lögum sleppir og hafnalögin taka við hef ég rekið augun í að í 27. gr. hafnalaga segir varðandi kæruheimildir, með leyfi forseta:

„Notendum hafna er heimilt að skjóta ákvörðunum hafnarstjórna samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, öðrum en gjaldskrárákvörðunum, til Siglingastofnunar Íslands.“

Þetta þýðir að ef notandi hafnarinnar er ekki sáttur við þær ákvarðanir sem Siglingastofnun sem stjórnvald, sem hafnarstjórn í skilningi laganna, fer með þá getur hann skotið þeim — hvert? Til Siglingastofnunar. Það er augljóst að þarna er smá villa í frumvarpinu. Það gengur auðvitað ekki að menn kæri ákvarðanir stjórnvalds til hins sama stjórnvalds. Ég tel því að gera þurfi hér lagfæringar á frumvarpinu milli 2. og 3. umr. og að skjóta eigi einhvers staðar inn í frumvarpið grein sem tekur á kæruheimildum. Eðlilegast væri að ákvörðunum sem Siglingastofnun tekur í krafti hlutverks síns sem hafnarstjórn mætti skjóta til samgönguráðherra. Ég sé ekki að það sé annað stjórnvald sem getur tekið að sér það hlutverk. Ég beini því til formanns nefndarinnar að skoða það á milli 2. og 3. umr. hvort ekki er hægt að gera þetta ef menn eru sammála þeim skilningi sem ég hef hvað þetta snertir.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að óþörfu og hef komið á framfæri þeim sjónarmiðum sem voru þess valdandi að ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Sömuleiðis hef ég komið á framfæri ábendingum varðandi kæruheimildirnar sem ég tel að þurfi að skerpa eða í raun og veru setja inn í frumvarpið af því að þær skortir í frumvarpið í dag. Ef hafnalögin eiga að gilda þá verður þetta merkingarleysa að því leyti til að Siglingastofnun er bæði sá sem tæki við kvörtunum eða kærumálum og líka sá sem tekur stjórnvaldsákvarðanir sem eru kæranlegar. Ég læt þetta duga um þetta mál að sinni, frú forseti.