135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[23:22]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um 3. gr. í frumvarpi til laga um Landeyjahöfn þá vil ég segja að þetta er réttmæt ábending hjá þingmanninum. Það er alveg ljóst að þegar frumvarpið er lesið með hafnalögunum þá gengur auðvitað ekki upp að Siglingastofnun sé í skilningi frumvarpsins hafnarstjórn og í hafnalögunum geti þessi sama Siglingastofnun, hafnarstjórnin, skotið úrskurði vegna kærumála til Siglingastofnunar.

Þessu þarf að sjálfsögðu að breyta og á þessum síðustu dögum hefur þetta misræmi í textanum hreinlega farið fram hjá mönnum. Mér finnst sjálfsagt að við skoðum það og leiðréttum. Þar sem ekki gefst tóm til að halda nefndarfund á morgun vegna anna í öðrum nefndum mun ég væntanlega gera breytingartillögu sem tekur mið af þessari ábendingu og skjóta inn þá málsgrein í 3. gr. frumvarpsins til að taka af allan vafa um að það sé ekki Siglingastofnun sem sé hafnarstjórn. Við finnum einhverja leið til þess, hvort sem það verður þá þannig að ráðherra muni skipa einhverja nefnd sem gegni þá hlutverki hafnarstjórnar eða að Siglingastofnun geti skotið úrskurðum til ráðherra í stað þess að skjóta úrskurðinum til Siglingastofnunar.