135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[23:24]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrir viðbrögðin við þessari ábendingu. Ég held að það sé hárrétt. Reyndar nefndi hún tvær leiðir færar í þessu sambandi, annars vegar að setja sérstakt ákvæði um kæruheimildir sem tækju á því að kærur vegna ákvarðana Siglingastofnunar sem hafnarstjórnar færu beint til ráðherra eða þá hina leiðina að skipuð yrði sérstök hafnarstjórn af samgönguráðherra, fyrir þessa höfn. Þá giltu um ákvarðanir þeirrar hafnarstjórnar sömu ákvæði og eru í hafnalögunum í dag. Þær væru þá kæranlegar til Siglingastofnunar og svo áfram til ráðherra.

Þarna eru því tvær leiðir sem hægt er að fara og ég tek undir það með þingmanninum og þakka fyrir að hún lýsir sig reiðubúna til þess að beita sér fyrir breytingartillögu sem tekur á þessu álitaefni áður en málið kemur til 3. umr. .