135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[23:51]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda á að tæknilega er mjög erfitt að verjast brimi. Brimi er eiginlega ekki hægt að verjast öðruvísi en með því að setja brimvarnargarða út fyrir þar sem brimið er. Þá er hægt að loka af fyrir brimi. Þá erum við að tala um þá tölu sem ég minntist á hér áðan, þ.e. um 18–20 milljarða í hafnarframkvæmdir og kostnað við höfnina. Er ég þá að vitna í skýrslu frá Gísla Viggóssyni hjá Siglingastofnun sem var og er aðalhönnuðurinn að þessu hafnarmannvirki.

Ég spurði hann beint að því sjálfan á fundi hvað það mundi kosta að fara með þetta út. Hann benti mér á skýrsluna og taldi að það væru um 18 milljarðar. Þetta var síðasta haust og ætla má að það sé orðið töluvert hærra en það var þá. Það má því örugglega reikna með 20 milljörðum.

Ég vildi líka minna hv. þm. Bjarna Harðarson á það að skoðanakönnunin sem var gerð í Vestmannaeyjum á haustdögum á innan við viku sýndi að helmingur Vestmannaeyinga er mjög tortrygginn á þessa framkvæmd. Það er dálítið gaman að því, af því að ég er nú skipstjórnarmaður, að skipstjórarnir í Vestmannaeyjum — sem þekkja til aðstæðna þarna, hafa siglt þessa leið fram og til baka og eru raunverulega miklu hæfari til þess að meta hvort þetta er framkvæmanlegt og mögulegt — eru flestir sammála mér.