135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[23:53]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að rökræða um siglingar við hv. þm. Grétar Mar Jónsson vegna þess að svo háttar til að ég hefi aldrei verið á sjó en hann er reyndur skipstjóri.

Ég verð eiginlega að vísa til þess að hafa verið á fundi, sem við efndum til ég og hv. þm. Guðni Ágústsson, í Vestmannaeyjum með Gísla Viggóssyni. Þar mættu allmargir af þeim sem hafa verið mjög gagnrýnir á framkvæmdina og voru mér færari um að rökræða hluti sem þessa. Ég er ekki frá því að einhverjir af þeim sem komu á þann fund með miklar efasemdir hafi farið út af honum með færri efasemdir en áður og það átti einnig við um mig.

En það er alveg ljóst í mínum huga að ef þessar grunsemdir eru réttar, að það verði að byggja brimvarnargarð fyrir Landeyjahöfninni, verður að gera eitthvað í framhaldinu. Það yrðu mikil vonbrigði ef sú kostnaðaráætlun sem nú liggur fyrir dugar ekki.

Mín eina reynsla af brimi er að hafa búið við brimvarnargarðinn á Eyrarbakka og hlustað á brimið, það er mjög skemmtilegt. En mig rámar þó í að á teikningum sem ég skoðaði fyrir ekki margt löngu af höfn sem teiknuð var í Þykkvabæ af Norður-Atlantshafsbandalaginu, NATO, hafi verið gert ráð fyrir því að sigla beint inn í landið án þess að garðar væru úti fyrir. Þar eru aðstæður með mjög líkum hætti og þeim sem er í Bakkafjöru enda stutt þar á milli.