135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[23:55]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég skrifaði upp á þetta nefndarálit með fyrirvara. Fyrirvari minn snýr að því að vaknað hafa margar spurningar um meginatriði framkvæmdarinnar, hvort innsigling inn í umrædda höfn verði nægjanlega örugg. Við þurfum ekki að velkjast í vafa um það að sú staða sem hugsanlega gæti komið upp varðandi innsiglingu í höfnina í Bakkafjöru á ekki við að sumarlagi. Ég tel a.m.k. víst að hægt verði að sigla inn í höfnina eins og hún er hönnuð allan sumartímann án þess að verða fyrir miklum töfum eða þurfa að snúa frá.

Hæstv. forseti. Sjólag við suðurströndina getur verið rysjótt að haust- og vetrarlagi. Á þessari stundu vita menn ekki hversu oft það yrði eða hversu margar ferðir mundu hugsanlega falla niður. Ekki er heldur vitað nákvæmlega hvort það varir í heilan dag eða hálfan, tvo daga eða þrjá. Það ræðst auðvitað af veðurfari og sjólagi.

Þetta hefur maður a.m.k. heyrt frá sjómönnum sem hafa verið við suðurströndina, þeir hafa efasemdir um þetta. En vonandi eru mælingar og rannsóknir þeirra manna sem hafa verið að hanna þessa höfn réttar. Ég tel að málum sé þannig komið að vinna eigi þetta verk og samþykki því höfnina og þetta verk. Ég hef eingöngu þann fyrirvara að ég hef svolitlar efasemdir um hvort öryggi við innsiglinguna verði nægjanlegt miðað við væntingar Vestmannaeyinga.

Þeir vænta þess að sjálfsögðu að þarna verði höfn sem hægt sé að sigla í — siglingin tekur kannski 20–25 mín. og þar af leiðandi verður ferðatíðni ör sem er mjög mikill kostur. Ég er viss um að höfnin á eftir að færa bæði Vestmannaeyingum og íbúum í Rangárþingi eystra ávinning í framtíðinni. Það er ekki spurning. Atvinnulegan ávinning, félagslegan ávinning og samgöngulegan ávinning og hún eykur ferðamannastraum milli lands og Eyja. Ég held að Vestmannaeyingar muni njóta þess mjög og vænti þess að í framtíðinni reynist höfnin jafn vel og vonir standa til. En efasemdirnar eru vissulega til staðar og fyrirvari minn snýr eingöngu að því máli.

Þessi höfn yrði þjóðvegurinn til Vestmannaeyja. Hún er endastöð ferju sem er framlenging þjóðvegar milli lands og Eyja. Vonandi þjónar hún vel sem slík. Vonandi náum við þeim markmiðum sem að er stefnt. Ég held að það verði ekkert betur rannsakað en gert hefur verið við undirbúning þessarar framkvæmdar.

Vonandi munu þeir sem hafa haft efasemdir reynast hafa rangt fyrir sér þannig að fjárfestingin nýtist og höfnin nýtist og allir þeir kostir sem fylgja hafnargerðinni. Ég er sannfærður um að bæði Sunnlendingar uppi á landi og Vestmannaeyingar munu njóta þess í ríkum mæli ef þessi höfn verður eins og vonir standa til. Ég á ekki aðra ósk heitari en þá að málið gangi farsællega miðað við þær fjárveitingar sem í það verða settar. En svo kann að fara að við þurfum að takast á við endurbætur og þá verðum við vissulega að gera það með einhverju því lagi að það dugi.

Maður hefur svo sem séð hafnir víða í veröldinni við opið haf og þær eru með ýmsu lagi. Í Japan eru langir hafnargarðar út í hafi, hátt í 700 metra eða kílómetra frá ströndinni, og þeir eru eingöngu til að brjóta hafölduna. Síðan sigla menn beggja megin við þessa garða og hafnarmynnið er fyrir miðju þessara garða sem eru kannski hátt í kílómetri á lengd og er eingöngu, eins og við höfnina fyrir sunnan Tokyo, ætlað að brjóta niður ölduna í Kyrrahafinu. Þó að þar sé oftast nær gott veður gerist þar ótrúlegt sjólag í fellibyljum. Það er eins og þetta hannað með þessu lagi. Við höfum séð aðrar hafnir eins og í Danmörku sem eru hannaðar með öðru lagi og líku sniði og hér er verið að leggja til og vonandi eru menn bara að gera rétta hluti.