135. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[00:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég í lok þessarar umræðu þakka þeim þingmönnum sem um þetta mál hafa talað og hv. samgöngunefnd fyrir yfirferð um það. Umræðan í kvöld hefur verið mjög góð. Þingmenn hafa lýst skoðunum sínum og nokkrar spurningar hafa verið bornar fram sem mér er ljúft og skylt að svara.

Hv. þm. Bjarni Harðarson lýsti fundi sem framsóknarmenn héldu í Vestmannaeyjum með sérfræðingi Siglingastofnunar, Gísla Viggóssyni. Hann er einn fremsti sérfræðingur á þessu sviði í heiminum. Margir leita til hans og hefur hann mikla virðingarstöðu hvað þetta varðar. Hv. þingmaður orðaði það á þann veg að hann hefði haft meiri trú eftir þann fund en áður og hefði haft það á tilfinningunni að margir sem komu á fundinn fullir efasemda hafi farið út með færri efasemdir.

Það er höfuðmálið að eftir því sem menn fara betur í gegnum þessa hluti, ræða þá og hlusta á þá sérfræðinga, sem hafa líka sent gögn sín til útlanda og fengið úttekt á þeim hjá hlutlausum aðila, er það niðurstaðan að verkið hefur verið unnið eins vel og mögulegt er og þess vegna mæla sérfræðingarnir með þessari leið.

Það er líka rétt, sem bæði hv. þm. Grétar Mar Jónsson og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sögðu, að það er auðvitað ósk okkar allra að vel takist til með þetta samgöngumannvirki og það verði til hagsbóta og gagns fyrir þá sem eiga að nota það. Það skiptir ekki máli hvort það er Landeyjahöfn eða aðrar hafnir, vegir sem við erum að gera, vegarstæði sem við erum að velja, jarðgöng og staðsetning þeirra og flugvellir — allt eru það samgöngumannvirki sem við byggjum til hagsbóta fyrir íbúa landsins og þá sem sækja okkur heim. Ég segi: Við höfum ekki annað í höndunum en álit þessara sérfræðinga. Þeir eru virtir og við treystum þeim vel fyrir þessu verki.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að fara mörgum orðum um þann útboðsferil sem verið hefur í gangi. Eins og menn vita var verkið allt boðið út í einkaframkvæmd, þ.e. bygging, fjármögnun og rekstur til 15 ára. Það eru engin ný sannindi í því. Fyrsta tilboðið var mjög hátt og því var hafnað. Þá var farið í samningaviðræður sem enduðu með því að þeir einu aðilar sem settu fram tilboð sendu inn svokallað frávikstilboð. Það urðu mikil vonbrigði þegar í ljós kom að aðeins einn aðili var með gilt tilboð. Tveir aðilar sögðu sig frá því á tilboðstímanum og einn skilaði inn tilboði sem dæmt var ógilt og gerði engar athugasemdir við það. Þannig að eftir stóð aðeins eitt tilboð. Það er hárrétt, sem kom fram í ályktun bæjarstjórnar Vestmannaeyja, að ástand á fjármálamörkuðum heims, þar með talið á Íslandi, hleypti verðinu upp.

Hv. þingmenn Bjarni Harðarson og Grétar Mar Jónsson beindu til mín fyrirspurn um hvernig þetta mál stæði. Ég get aðeins sagt það að þetta mál er að mínu mati í ágætisvinnslu á vegum þeirra aðila sem um það hafa verið að fjalla, tökum sem dæmi fagráðið sem fjallaði um það, Siglingastofnun og auðvitað hjá okkur í samgönguráðuneytinu. Ég er að láta skoða hvort kostnaðaráætlun sé rétt, menn hafa spurt að því hvort hún sé of lág miðað við tilboðið sem var að berast. Í samgönguráðuneytinu erum við að láta yfirfara þá kostnaðaráætlun og sjá hjá öðrum aðila hvernig farið er í gegnum það og það skoðað.

Þó að tíminn sé naumur, við erum að sjálfsögðu enn að tala um að ferjan verði tilbúin 1. júlí 2010, er samt sem áður nauðsynlegt að fara í gegnum þetta og einhverjir dagar til eða frá — hver dagur er dýr sem líður en samt sem áður verðum að vanda okkur hvað það varðar að hafa allar þær bestu upplýsingar sem hægt er þegar menn setjast niður og taka ákvörðun um næstu skref.

Þetta vildi ég segja sem svar við spurningum hv. þingmanna hvað þetta varðar. Ég vona að það dugi og vona að okkur gangi vel með að vinna þetta mál áfram. Ég veit ekki hvenær ég fæ álit þeirra aðila sem ég hef nú leitað til. Ég veit ekki hvaða dag það verður en við verðum bara að taka okkur þann tíma sem þarf í það.

Að lokum, virðulegi forseti, endurtek ég þakkir mínar til samgöngunefndar fyrir vinnu hennar og þeirra samgöngunefndarmanna sem allir skrifa upp á nefndarálitið, tveir að vísu með fyrirvara — þeir hafa lýst fyrirvörum sínum og það er auðvitað sjálfsagt mál. En mér sýnist að frumvarpið hafi verið vel unnið og vel hafi verið farið yfir það. Í fyrramálið skulum við fara yfir athugasemdir sem hafa komið fram, bæði frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og Steinunni Valdísar Óskarsdóttur, formanni nefndarinnar. Ef mönnum hefur sést yfir það atriði sem hér hefur komið fram finnum við leið til að lagfæra það við síðustu umræðu. Ég ítreka líka þakkir til þeirra þingmanna sem hafa rætt þetta mál hér. Umræðan var þörf og farið var yfir hlutina á yfirvegaðan og ágætan hátt.