135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:30]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú greinilegt að hæstv. iðnaðarráðherra líður eitthvað illa yfir þessari lagasetningu fyrst hann ómakar sig hér upp í ræðustólinn og gerir athugasemdir gagnvart því sem ég hef sagt hér fyrr.

Eins og ég sagði í ræðu minni höfum við framsóknarmenn litið á einkavæðinguna og einkareksturinn sem undantekningu í rekstri heilbrigðisstofnana. Ég tók það líka sérstaklega fram að það væru dæmi um slíkan rekstur en ég sagði líka að flest benti til að hann væri kostnaðarsamari en hinn almenni opinberi rekstur sem við þekkjum best í því félagslega heilbrigðiskerfi sem hér hefur verið við lýði.

Fyrst hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega þetta með ákvörðunina sem tekin var 1995 væri kannski skemmtilegt að rifja upp hvað sagt var á þeim tíma af hálfu flokks hans og hugsanlega hefur hann sjálfur tjáð sig á þeim tíma mjög á skjön við það sem hann styður í dag. Ég hef því fullan skilning á því að hæstv. iðnaðarráðherra líði illa og hafi áhyggjur af þessari lagasetningu. En þetta er nú eitt af því sem hann undirgekkst með því að fara í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og með því að samkomulag var gert á Þingvöllum þar sem þetta mál var grundvallaratriði af hálfu Sjálfstæðisflokksins þegar hann hóf samstarf við Samfylkinguna. (Gripið fram í.)