135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:31]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að iðnaðarráðherra líður bara býsna bærilega á þessum morgni. Iðnaðarráðherrann er ákaflega glaður yfir því að með honum og Framsóknarflokknum hafa tekist pólitískar ástir í gegnum samstarf að ágætum málum sem við erum hér að koma í gegnum þingið.

Það er hins vegar dálítið fyndið, frú forseti, að Framsóknarflokkurinn kemur hérna og ber sér á brjóst og segist vera á móti einkavæðingu nema í undantekningartilvikum og það eru nákvæmlega þessi tilvik sem hann, Framsóknarflokkurinn, beitti sér fyrir. Þá er það í lagi og þá heitir það undantekning.

Ég get hins vegar upplýst hv. þingmann um að það getur vel verið að það sé rétt hjá henni. Ákveðin reynsla af útboði á þjónustu núna tiltölulega nýlega bendir til þess að það kann vel að vera að ekki sé hægt að fá miklu ódýrari rekstur í gegnum útboð, við höfum nýlegt dæmi um það. Hins vegar vil ég líka að það komi fram að á sínum tíma, 1995, studdi ég þessa viðleitni Framsóknarflokksins til þess að koma tæknifrjóvgunardeildinni á þetta sérstaka rekstrarform. Þá taldi ég að undir því sleifarlagi sem ríkti í heilbrigðismálunum væri þetta eina leiðin til þess að fullt af fólki sem þráði það heitast að eignast börn gæti fengið þá þjónustu. Af tvennu illu taldi ég að það væri rétt að fara þessa leið og þess vegna studdi ég það.

Ég hef líka löngum verið talsmaður þess að samtök sem sjá um ákveðna tegund þjónustu fái að reka deildir af þessu tagi. Þess vegna studdi ég það líka þegar Framsóknarflokkurinn tók hið seinna skref sitt og það kalla ég ekki einkavæðingu, það kalla ég einkarekstur. Ég er alveg reiðubúinn til þess að skoða út í hörgul þann möguleika að t.d. samtök sjúklinga taki að sér ýmsa góða (Forseti hringir.) þjónustu sem þau hafa sinnt með mjög fallegum og góðum hætti á síðustu árum.