135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:42]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst að svara hv. þingmanni um það hvernig við munum greiða atkvæði í þessu máli. Það sem ég sagði í nefndaráliti mínu var einungis að við mundum sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins. Hins vegar munum við styðja fjölda greina og breytingartillagna. Það er lokaafgreiðslan sem við ætlum ekki að taka ábyrgð á vegna þess að frumvarpið er gríðarlega opið. Við vitum um vilja og áform Sjálfstæðisflokksins að gjörbreyta heilbrigðiskerfinu, það hefur ekkert farið á milli mála. Þeir vilja hafa þar mun meiri einkarekstur og einkavæðingu en við höfum viljað. Það er þess vegna sem við viljum ekki taka ábyrgð á þessu máli. Við sátum hjá fyrir jólin þegar afgreidd var 18. grein þeirra laga sem heimilaði stofnsetningu þessarar stofnunar og við munum vera samkvæm sjálfum okkur með því að sitja líka hjá við lokaafgreiðslu þessa máls.