135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:43]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta heilbrn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Hér er komið fram stórt mál sem boðar viðamikla stefnubreytingu í heilbrigðisþjónustu Íslendinga. Málið er, eins og hér hefur þegar verið bent á, seint fram komið. Það hefur í tvígang verið tekið hér á dagskrá með afbrigðum og að mínu mati og okkar, fulltrúa vinstri grænna í hv. heilbrigðisnefnd, hefur það fengið of skjóta afgreiðslu og meðferð í nefndinni.

Hv. formaður nefndarinnar sagði hér áðan að umsagnir væru margar og að þær væru jákvæðar. Mitt mat er að umsagnirnar séu of fáar miðað við þann fjölda sem send var beiðni um að veita umsögn um. Það er ekki nema eðlilegt vegna þess að umsagnarfresturinn sem gefinn var, var mjög stuttur.

Það má öllum vera ljóst að við vinstri græn hefðum viljað ræða þetta stóra mál mjög ítarlega hér við 2. umr. málsins og kynna breytingartillögur okkar við ýmsar greinar frumvarpsins sem þá eru einkum ætlaðar til þess að styrkja hinn félagslega þátt sjúkratryggingakerfisins nú þegar markaðsvæðingin á að taka völdin á þeim bæ.

Frú forseti. Þó að þetta mál hefði sannarlega verðskuldað tvöfaldan ræðutíma hér við 2. umr. er það svo í ljósi samkomulags sem orðið er um þingstörfin að við munum geyma umfangsmestu athugasemdir okkar við þetta frumvarp til 3. umr. og það er gert í trausti þess að málið fái vandlegri skoðun í nefndinni í sumar en tök hafa verið á miðað við þann stutta tíma sem þingið hefur haft það umfjöllunar og að það komi í betri búningi inn í þingið við svo búið.

Í stuttu nefndaráliti okkar fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í hv. heilbrigðisnefnd eru þessi atriði áréttuð. Það er svo stutt að ég ætla ekki að eyða tíma í að lesa það, það ítrekar það sem ég var að segja hér áðan. Þessu nefndaráliti okkar fylgir minnisblað sem lagt var fram á fundi í heilbrigðisnefnd 24. maí sl. og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, kynnti. Þar er að finna mjög efnismiklar ábendingar um eðli þeirra breytinga sem hér er verið að ráðast í. Ég vil hvetja alla hagsmunaaðila, sem er allur almenningur í landinu — allir þeir sem eru skjólstæðingar og stuðningsmenn hins félagslega heilbrigðiskerfis sem hér hefur verið við lýði og við viljum standa vörð um — til þess að nýta tímann vel í sumar, fara vandlega yfir þau aðvörunarorð sem koma fram í nefndaráliti okkar hv. þm. Þuríðar Backman í minnisblaði frá Rúnari Vilhjálmssyni prófessor.

Það má öllum ljóst vera að við teljum að þetta frumvarp boði hættulega breytingu í heilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga en jafnframt teljum við það mikinn áfangasigur að því sé nú afstýrt að það verði lögfest fyrir vorið. Það þarf svo sannarlega að vanda betur til verka þegar um svo stóra stefnubreytingu er að ræða.

Ég vil, frú forseti, minnast hér lítillega á breytingartillögu sem er að finna á þskj. 1208 þar sem lögð er til breyting þannig að á eftir 2. málsl. 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. frumvarpsins komi:

„Ekki er þó heimilt að taka gjald fyrir rannsóknir o.fl. sem eru nauðsynlegur undanfari innlagnar vegna aðgerðar.“

Þetta er kannski ekki mjög auðskilið en í þessari breytingartillögu felst að það er gjaldtökuheimild í 29. gr. þar sem heimilt er að taka gjald m.a. fyrir göngudeildarþjónustu og rannsóknir. En breyting af þessu tagi mundi tryggja að sjúklingar sem verið er að leggja inn til aðgerðar séu ekki látnir koma deginum áður til þess að fara í kostnaðarsamar rannsóknir, jafnvel myndatökur eða tölvusneiðmyndir, og borga það úr eigin vasa vegna þess að ekki er búið að skrifa þá inn á spítalann.

Ég tel að hér sé um mjög mikið réttlætismál að ræða og nauðsynlegt að breyta þessu atriði því að það er alveg ljóst að mínu mati að Landspítali – háskólasjúkrahús hefur verið að misnota þessa gjaldtökuheimild til ferilverka og afla sér sértekna af aðgerðum sem eiga samkvæmt 18. gr. frumvarpsins að vera sjúklingum algerlega að kostnaðarlausu og tilheyra innlögn og aðgerð.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég treysti því að við munum fá betra frumvarp hér í haust og við getum tekið höndum saman um að standa vörð um hið félagslega heilbrigðiskerfi sem svo mikilvægt er í velferðarkerfinu okkar.