135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða stórt og mikið mál. Við erum væntanlega að setja okkur ramma um að við náum þeim markmiðum í framtíðinni að fá sem besta þjónustu í heilbrigðiskerfinu öllum til handa fyrir það fé sem við verjum í heilbrigðiskerfið. Jafnframt erum við að reyna að tryggja öllum jafnan aðgang og rétt að heilbrigðisþjónustunni.

Það hafa oft staðið miklar deilur um það hvert við værum að stefna í heilbrigðisþjónustunni og rekstri heilbrigðisstofnana. Við höfum haft þá stefnu í Frjálslynda flokknum að það væri eðlileg krafa að reyna að ná sem mestu fyrir þá fjármuni sem við verjum í heilbrigðisþjónustuna en höfum ekki talið að þar ætti sérstaklega að stefna til einkarekstrar. Ég lít þannig á að í þessu frumvarpi sé verið að marka að ríkið greiði fyrir heilbrigðisþjónustuna en geti vissulega samið um það hverjir veita hana.

Hér er verið að setja á fót stofnun sem á að hafa þekkingu að því er varðar samningagerð á sviði heilbrigðisþjónustunnar og annast þá framkvæmd. Miðað við þær umræður sem fram hafa farið í nefndinni um þetta mál þá virðist verulega skorta á að mati margra að nægileg þekking sé til staðar þegar verið er að semja um verkferla, kaup og þjónustu á heilbrigðissviðinu.

Ég lýsi yfir stuðningi við þetta mál með fyrirvara. Ég er áheyrnarfulltrúi í heilbrigðisnefndinni og fyrirvari minn snýr að því að í fyrsta lagi tel ég að við þróun nýrrar stofnunar þurfi að gæta mikils aðhalds, passa að stofnunin þenjist ekki út og verði þegar upp er staðið talsvert kostnaðarsamari en menn hafa gert ráð fyrir.

Hér er auðvitað verið að færa verkefni frá Tryggingastofnun yfir í Sjúkratryggingastofnun og vonandi tekst það vel án þess að því fylgi verulega aukinn kostnaður. Samt sem áður sýnist mér, og það er viðurkennt í umsögn fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp, að kostnaður mun aukast eitthvað. Mér sýnist hins vegar að það geti vel farið svo ef vel tekst til að sá kostnaður komi til baka í skilvirkara yfirliti um heilbrigðisþjónustuna og þá verkferla sem hafa að markmiði að nýta fé landsmanna sem allra best í heilbrigðisþjónustunni.

Það hefðu hins vegar þurft að liggja fyrir drög að mörgum reglugerðum sem heilbrigðisráðherra hefur heimild til að setja og væntanlega líta margar reglugerðir dagsins ljós. Það hefði verið nauðsynlegt að fá drög að reglugerðunum á borðið þannig að menn sæju betur hvert væri verið að stefna í áherslum og öðru slíku því að heilbrigðisráðherra er vissulega falið talsvert mikið vald.

Að þessu snúa fyrirvarar mínir, annars vegar að því að hér verði ekki stofnun sem þenjist óheft út á komandi árum með tilheyrandi kostnaði. Það er nauðsynlegt að stofnunin verði skilvirk. Hins vegar tel ég að það hefðu þurft að liggja fyrir nánari upplýsingar um þau fyrirmæli sem sett verða í reglugerð hjá hæstv. ráðherra til þess að við hefðum haft betri yfirsýn yfir málið. Mér finnst samt í heildina að stefnumörkunin sé eðlileg miðað við ríkjandi aðstæður í þjóðfélaginu en það ber alltaf að fara varlega og skoða mjög vandlega hvaða skref er verið að stíga. Við munum aldrei styðja það í Frjálslynda flokknum að menn hafi ekki jafnan rétt til heilbrigðisþjónustunnar.

Þetta er fyrirvari minn við málið, hæstv. forseti. Í sjálfu sér tek ég undir að það sé að mörgu leyti gott að fresta afgreiðslu þessa máls til haustsins og væntanlega fáum við þá á borðið meira af upplýsingum. Ég held að við verðum að gera kröfu til þess að drög komi frá heilbrigðisráðherra til heilbrigðisnefndar um sem flestar reglugerðir sem hann hyggst gefa út á grundvelli þessarar lagasetningar þannig að áður en málið verði endanlega afgreitt hér á haustdögum hafi heilbrigðisnefnd betri yfirsýn yfir málið en hún hefur núna.

Það sem má auðvitað gagnrýna við þessa málsmeðferð er hversu seint málið kemur inn í þingið. Þetta er auðvitað stærra mál en svo að gott lag sé á því að það sé unnið með þessum hætti. Það er alveg hægt að taka undir þá gagnrýni og eðlilegt að þetta mál hefði verið unnið á lengri tíma. En miðað við hversu þröngan tímaramma hv. heilbrigðisnefnd hafði þá held ég að hún hafi reynt að vinna þetta eins vel og hægt var.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir fyrirvara mínum varðandi þetta mál en vænti þess að þau lög sem við munum væntanlega setja á haustdögum á grundvelli þessa frumvarps verði þannig að við séum sátt. Þau verði þannig að við tryggjum öllum jafnan rétt til heilbrigðisþjónustunnar og náum sem mestri og bestri þjónustu fyrir það fjármagn sem við leggjum til hennar. Með nýjum lögum tökum við upp form þar sem meira er byggt á samningum en verið hefur. Þá er auðvitað æskilegt að ríkið hafi þekkingu til þess að gera slíka samninga og tryggja vel að sem mest náist fyrir þá fjármuni sem við ráðstöfum til þjónustunnar.