135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:06]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að hin nýja sjúkratryggingastofnun sé skilvirk, að hún gæti þess að við fáum sem mest fyrir peningana og að hún hafi til þess þekkingu.

Ég vildi aðeins þó undirstrika að það er dýrt að spara í þessum efnum. Það er gríðarlega mikilvægt að hin nýja sjúkratryggingastofnun hafi sjálfstæða þekkingu og burði til þess að gera vitræna samninga um þjónustu við alla viðsemjendur.

Hún þarf að hafa til þess burði að leggja sjálfstætt mat á þörf og samninga. Hún þarf að geta lagt sjálfstætt mat á áhættu og hún þarf þar af leiðandi að geta metið t.d. kostnaðinn við aðgerðir annars vegar og aðgerðaleysi hins vegar. Hún þarf með öðrum orðum að geta ákveðið að veita meira fé í forvarnaaðgerðir til þess að draga úr kostnaði á öðrum sviðum, svo dæmi sé tekið.

Þess vegna verður hún að hafa mikla klíníska þekkingu innan sinna raða. Hún verður að hafa marga sérfræðinga og ég held þess vegna að það sé mjög mikilvægt að við ræðum um það án nokkurra undanbragða að það mun þurfa umtalsvert fjármagn til þess að koma þessari stofnun á fót og í það horf sem hún þarf að vera í. Ella getur það gerst að ýmis mistök geta átt sér stað, rangir samningar, vondir samningar, lélegt upplýsingaflæði og önnur slík mistök sem orðið hafa þegar menn hafa ætlað að spara sér almennilega uppbyggingu stofnana af þessum toga í nágrannalöndum okkar.

Við getum sérstaklega lært af nágrönnum okkar Bretum varðandi þetta. Þessi umgjörð þarf að vera fagleg, öflug og kröftug og hafa mikla burði til þess að sinna verkefnum sínum strax frá upphafi.