135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:18]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill svo sannarlega standa vörð um það ágæta kerfi í raforkunni, framleiðslunni og auðlindunum sem við landsmenn höfum byggt upp um allt land á undanförnum áratugum. Þar er full samstaða milli vinstri grænna. Við getum horft til íbúa á hitaveitusvæði á dreifi- og þjónustusvæði Hitaveitu Suðurnesja þar sem hollvinir Hitaveitu Suðurnesja brugðust við og náðu undirskriftum mikils meiri hluta kosningabærra manna þar syðra til þess einmitt að standa vörð um þetta kerfi. Þar er kallað eftir því að þessi hlutur einkaaðila sé tekinn inn aftur til ríkisins eða til sveitarfélaganna.

Nákvæmlega sama gerðist þegar einhver reyndi að stela Orkuveitu Reykjavíkur í REI-málinu síðastliðið haust. Almenningur í Reykjavík reis upp. Þegar við erum að tala um opinber fyrirtæki, fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna, erum við að tala um lýðræðislega aðkomu eigenda að stjórnun og rekstri þessara fyrirtækja. Ég fullyrði að enginn pólitíkus, hvar svo sem hann er í flokki í sveitarstjórnum á Suðurnesjum eða í Reykjavíkurborg, Akranesi eða Borgarnesi sem eiga þessi stærstu tvö fyrirtæki, mundi þora að koma fram með tillögu um að selja hlut í þessum fyrirtækjum einfaldlega vegna þess að almenningsálitið er á öðru máli. Menn vilja standa vörð um þetta. En þá kemur ráðherra Samfylkingarinnar og segir að það þurfi að búta fyrirtækin í sundur. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að einkaaðilar hefðu ekki komist af á þessum markaði vegna þess að fyrirtækin væru of stór. Næsta skref væri fyrirtækjalegur aðskilnaður, þá væri hægt að opna fyrir aðkomuna. Það er því alveg skýrt á hvaða vegferð menn eru (Forseti hringir.) en sumir virðast fara hana með bundið fyrir bæði.