135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:27]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. síðasta ræðumanns, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, að það er mjög mikilvægt að í þeirri nefnd sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði forsætisráðherra verði allir helstu hagsmunaaðilar kallaðir að borði. En ég vil vekja athygli á því að auðlindanefndin svokallaða sem skilaði af sér árið 2006 tillögum um regluverk sem mætti nota í þessu skyni, þ.e. hvernig deila ætti út gæðum eins og þeim sem hér um ræðir og ekki síst hvernig velja ætti á milli aðila ef fleiri en einn eru um hituna og loks hvernig taka ætti gjald fyrir þessi gæði.

Á fund nefndarinnar kom Karl Axelsson sem var formaður auðlindanefndar og hann benti á að að sínu mati væri algerlega óþarft að skipa aðra nefnd. Það væri nóg að taka þessar tillögur sem þverpólitísk sátt náðist um í auðlindanefndinni hvað regluverkið sjálft áhrærir og skrifa það inn í lögin. Reyndar voru fleiri sem voru á því máli að það væri betra að setja ítarleg ákvæði í lögin sjálf frekar en að vísa þessu svona áfram.

Að lokum, frú forseti, vek ég athygli á því að þetta ákvæði um nefndina á aðeins við um þær auðlindir sem eru í eigu ríkisins. Í þessu frumvarpi er ekki gerð tilraun til að taka á því hvernig sveitarfélögin skipa sínum málum og miðað við aðkomu meiri hlutans af málefnum sveitarfélaga að undanförnu, hvernig honum hefur verið háttað, hlýt ég bara að fagna því að sveitarfélögin fái sjálf að ráða því hvort þau hlíta þessum vitlausu lögum eða ekki.