135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:29]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að það kom fram í nefndinni að formaður auðlindanefndar, Karl Axelsson, lagði á það áherslu að þarna væri búið að vinna mikið af því sem fara á fram í nefnd forsætisráðherra. Ég geri fastlega ráð fyrir því að sú vinna verði nýtt í vinnu nefndar forsætisráðherra. Í svona máli er afar gott að búið sé að vinna ákveðna undirbúningsvinnu og ég sé enga ástæðu til að endurtaka hana enda tel ég það ærið verk hvort eð er að fara yfir allt sem þarf að gera þarna. Það er bara gott mál að búið verði að flýta þar fyrir.

Ég hef sagt það áður og get alveg tekið undir með mörgum þeim sem ræddu það í nefndinni að réttara hefði verið að taka þessi atriði inn í lögin. Ég nefndi það við 1. umr. og er enn þeirrar skoðunar. En fyrst sú leið var ekki valin þá tel ég þessa leið, að færa þetta til nefndar forsætisráðherra, vera næstbesta kostinn og hef fulla trú á því að þessi mál verði vel til lykta leiddi af þeirri nefnd.