135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:36]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og gaman að hún skuli sem fyrrverandi iðnaðarráðherra koma hér inn í umræðuna á lokasprettinum um þetta frumvarp.

En það er bara eitt sem ég vildi gera athugasemdir við í málflutningi hennar og það er að hv. þingmaður veit það vel að eins og lögin eru í dag þá er hvergi neitt lágmarksviðmið um það hversu mikið og hversu langt eigi að hleypa einkaaðilum inn í orkufyrirtæki. Það er hvergi. Það er eingöngu tekið á eignarhaldi þessara fyrirtækja í sérlögunum. Því er ekki verið að breyta hér.

Það sem hér er verið að gera er að verið er að setja lágmark um að þessi fyrirtæki verði ávallt í meirihlutaeigu hins opinbera, hvað sem verður svo í framtíðinni um sérlögin eða um þeirra aðstæður að öðru leyti. Það er það sem verið er að gera hér. Hv. þingmaður veit það jafnvel og við að það ríkti hér óvissa á síðasta ári í kjölfar sölunnar á hlut Hitaveitu Suðurnesja sem síðan var ekki bara sala á 16% hlut til einkaaðila heldur var sá hlutur mun stærri. Þá vissum við að það þyrfti að eyða ákveðinni óvissu sem þá blasti við að fyrirtækið, sem hefur mjög ríka sérleyfisþætti innan sinna raða, gæti orðið í meirihlutaeigu einkaaðila.

Virðulegi forseti. Þetta veit hv. þingmaður að er ástæðan fyrir því að við förum af stað hér. Það er verið að setja upp ákveðnar girðingar þannig að gullæðinu, sem hv. varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði að ríkti á þessum markaði, ljúki og að rammi verði settur utan (Forseti hringir.) um starfsemina og (Forseti hringir.) reksturinn.