135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:40]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar farið er frá engu lágmarki upp í að það sé lágmarkskrafa að sérleyfisfyrirtækin séu í meirihlutaeign hins opinbera þá er það risastór og mjög mikilvæg breyting.

Ég segi það hér vegna þess að hv. þingmaður talar um að hér sé ekkert sögulegt á ferðinni. Það sem verið var að samþykkja hér í gær er að tryggja með lagasetningu áframhaldandi opinbert eignarhald á orkuauðlindum þjóðarinnar.

Það er risastórt skref sem verið er að stíga. En að sama skapi þarf líka að virða það við hv. þingmann að hún hóf þá vinnu sem við tökum nú stærra skref í sem er aðskilnaður samkeppnis- og sérleyfisþátta, að reyna að auka samkeppni á þessum markaði neytendum til hagsbóta og er það vel. Ég veit að ég og hv. þingmaður erum sammála um það skref sem tekið er í því sambandi.

En ég segi enn og aftur að hér er verið að fara úr engri lágmarkskröfu upp í að lágmarkskrafan sé í meirihlutaeign hins opinbera í sérleyfisþáttunum. Það er meiri háttar breyting, virðulegi forseti.