135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[12:48]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson, hefur mælt fyrir nefndaráliti meiri hlutans en ég flyt hér nefndarálit minni hlutans sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd.

Frú forseti. Það frumvarp til laga sem hér er til umfjöllunar felur í sér að fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, sé heimilt að taka á árinu 2008 lán fyrir 500 milljarða kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána Seðlabanka Íslands þann hluta sem tekinn verður að láni í erlendri mynt.

Tilgangurinn er annars vegar að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands og hins vegar að auka hugsanlega útgáfu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði með það að markmiði að styrkja innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað.

Það sem hér um ræðir er ein stærsta lántökuheimild Íslandssögunnar og það ætti því að vera frumskylda þeirra sem að frumvarpinu standa að gera ítarlega grein fyrir ástæðum þess, tilurð og þróun hugsanlegrar framvindu efnahagsmála og við hverju megi búast varðandi afkomu ríkissjóðs og hvers megi vænta í áframhaldandi aðgerðum stjórnvalda til að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Þetta hefur ríkisstjórnin ekki gert með tilhlýðilegum hætti. Ég minni á að hér er verið að fjalla um 500 milljarða kr. lántökuheimild sem er nærri tvöföld fjárlög íslenska ríkisins. Hér er bara sótt um einfaldar heimildir þess vegna.

Vandamálið sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir er mikið. Viðskiptahallinn hefur farið upp í meira en fjórðung af landsframleiðslu, verðbólga er nú 12–13%, eða jafnvel meir, sú mesta í tæp 20 ár; raunvextir eru 12–13%, með þeim hæstu í heimi, skuldsetning heimilanna og þjóðarbúsins er lamandi. Gengisfall gagnvart gjaldmiðlum sem fólk hefur verið að taka lán í undanfarin ár er á milli 30–40% á skömmum tíma og greiðslubyrði ungs skuldsetts fólks hefur á örfáum mánuðum hækkað svo munar tugum þúsunda króna. Allt kemur þetta einkar hart niður á heimilunum í landinu.

Það var greint frá því í fréttum í hádeginu í dag að vanskil einstaklinga og fyrirtækja ykjust hratt núna en hefðu verið í þokkalegu horfi fyrir nokkru. Sú lántökuheimild sem hér er farið fram á er herkostnaðurinn af alvarlegum hagstjórnarmistökum síðastliðinna ára og líklega einna mestu í lýðveldissögunni, þ.e. hvernig haldið hefur verið á málum í hagstjórn og efnahagsmálum og forgangsröðun í þeim efnum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég hygg að þau mistök sem hafa verið gerð á undanförnum árum eigi sér ekki hliðstæðu í allri lýðveldissögunni og nú koma þessi mistök þjóðarbúinu í koll.

Þær miklu byrðar sem ríkissjóður ætlar nú að taka á sig eru ein af mörgum birtingarmyndum og alvarlegum afleiðingum þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar þar sem ofuráhersla hefur verið lögð á, nánast í blindri trú, stóriðju og skattalækkanir en fyrst og fremst skattalækkanir til þeirra sem hafa hæstu tekjurnar; á útrásarveisluna sem við höfum orðið vitni að undanfarin ár. Þessi stefna hefur verið studd með hömlulausri einkavæðingu á almannaþjónustu, byrjaði með einkavæðingu á bönkunum og sölu þeirra, síðan Landssíminn og nú horfum við upp á að það á að halda áfram á einkavæðingarbrautinni með því að einkavæða heilbrigðiskerfið. Þetta eru afleiðingar þeirrar stefnu sem við höfum mátt búa við á undanförnum árum.

Undanfarnar vikur, mánuði og ár hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hér á Alþingi, varað við því sem koma skyldi og ítrekað hvatt til beinskeyttra aðgerða í efnahagsmálum þjóðarinnar. Seðlabanki Íslands og innlend sem alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki vöruðu einnig sterklega við þróun mála og hafa gert á undanförnum árum allt frá árinu 2002–2003, að sú stefna sem þá hafði verið keyrð fram gæti ekki gengið upp. Það væri bara tímaspursmál hvenær brot kæmu í hana og vissulega má búast við að dýpt hennar verði meiri vegna samlegðaráhrifa í erfiðleikum á fjármálamörkuðum í nágrannalöndunum og á heimsvísu.

Árið 2005 lagði þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs t.d. fram ítarlegar tillögur um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika landsins. Þær tillögur hafa síðan verið uppfærðar og endurfluttar öll ár síðan þá. Á þeim tíma var lítið gert úr vandanum af núverandi stjórnvöldum. Ef hlustað hefði verið á þau varnaðarorð sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar– græns framboðs báru fram hér á Alþingi og í samfélaginu væri veruleikinn öðruvísi en hann er í dag.

Það er áríðandi að viðurkenna þau alvarlegu mistök sem gerð hafa verið. Það gerir ríkisstjórnin ekki enn og hefur ekki breytt um þó svo að skipt hafi verið um félaga í ríkisstjórnarbólinu. Það er mikilvægt að læra af þessum mistökum, endurtaka þau ekki og breyta um stefnu. Það sem hins vegar skiptir öllu máli nú er að verja heimilin í landinu. Koma verður í veg fyrir að fasteignamarkaðurinn hrynji, verja verður atvinnuöryggi og skapa stöðugleika fyrir almennt atvinnulíf. Nauðsynlegt er að ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd og borga niður erlendar skuldir eins fljótt og mögulegt er því að skuldasöfnun þjóðarbúsins ógnar efnahagslegu sjálfstæði þess ef heldur fram sem horfir. Tryggja verður að sá hugsunarháttur hérlendis að upphefja hvers kyns bruðl, þenslu, flottræfilshátt og græðgi – og senda svo reikninginn í hausinn á komandi kynslóðum eða almenningi í landinu – líði undir lok. Þar verður ríkisstjórnin og þeir sem hafa leitt þann feril, þá þróun í græðgisvæðingu samfélagsins undanfarinna missira, að koma til baka, gefa fordæmi, skila til baka því sem sjálftökuliðið hefur tekið í sinn hlut en ekki senda stöðugt reikninginn á almenning.

Það verður að vara sterklega við því ef þessi lántökuheimild er fyrst og fremst til þess hugsuð að styrkja gengi krónunnar, nota gengið til að ná verðbólgunni niður, og efna svo til nýrrar skuldasöfnunarveislu, þá er verr af stað farið en heima setið. Það er og stórvarhugavert ef stjórnvöld ímynda sér að einungis með þessari lántökuheimild sé efnahagsmálum þjóðarinnar komið á réttan kjöl – jafnvel þótt um sé að ræða eitt rosalegasta inngrip sem komið hefur fram í hagsögu landsins í langan tíma.

Það verður að krefjast þess að stjórnvöld leggi nú þegar fram tillögur og sýni í verki hvernig þau hyggjast verja stöðu heimilanna í landinu, styðja við bakið á þeim sem nú mæta miklum erfiðleikum eða geta mætt þeim á næstu vikum og missirum og tryggja efnahagslegan stöðugleika. Það er algjört skilyrði af okkar hálfu, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fyrir stuðningi við þetta frumvarp að þessari lántökuheimild fylgi frekari aðgerðir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Sterk og ábyrg hagstjórn og áframhaldandi aðgerðir verða að koma til.

Það gengur ekki að óska eftir lántökuheimild fyrir ríkissjóð ef það á að vera til að viðhalda óbreyttu kerfi. Ef það á að vera til að viðhalda óbreyttu misrétti, ef það á að vera til þess að viðhalda þeim mikla launa- og kjaramun sem verið hefur undanfarin missiri og hefur farið vaxandi. Þessi lántökuheimild og beiting hennar má ekki verða til þess að viðhalda þeim ójöfnuði eða viðhalda þeirri græðgi sem hefur fengið að grassera í íslensku samfélagi á undanförnum missirum.

Þess vegna er fráleitt af ríkisstjórninni að koma nú með yfirlýsingar um að það eigi að fara að fórna Íbúðalánasjóði. Yfirlýsingar bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra í þeim efnum eru ógnvekjandi. Væri ekki nær að styrkja Íbúðalánasjóð enn frekar með ríkisábyrgðum? Kannski mætti nota þessa heimild til þess að standa að baki almennum íbúðareigendum og íbúðarkaupendum í landinu. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða í öfuga átt hvað það varðar að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og öryggi fólks, hins almenna borgara.

Það er líka krafa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að nú þegar verði unnið að setningu laga sem kveða á um uppskipti á bönkunum í viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingarsjóði hins vegar, eins og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu til strax árið 2002 þegar einkavæðing og sala bankanna fór á fullt.

Ef ríkissjóður fær nú heimild til að taka að láni 500 milljarða kr. verður að gera þá skynsamlegu kröfu að bönkunum sé skipt upp, annars vegar í þann hluta sem þjónar íslensku atvinnulífi og hins vegar þann hluta sem stendur í fjárhættuspili erlendis. Það verður óásættanlegt og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs standa ekki að því að veita hér opinberar lántökuheimildir og ábyrgð fyrir áframhaldandi starfsemi fjármálastofnana sem við höfum mátt upplifa á undanförnum árum og ætla síðan að senda reikninginn á ríkið.

Styrking gjaldeyrisforða Seðlabankans rímar við það sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa talað fyrir á undanförnum mánuðum, eins og lesa má í umfangsmiklum tillögum þeirra í efnahagsmálum. Líta verður svo á að áhrifin af frumvarpinu, komi það til framkvæmda, ættu að koma fram í auknu trausti á íslenskt efnahagskerfi auk þess að styrkja lánshæfismat ríkissjóðs og innlendra fjármálastofnana. Slíkt er einn liður í að verja heimilin í landinu, þar eð hrun fjármálakerfisins mundi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér fyrir þjóðarbúið allt.

Æðsta skylda stjórnvalda er að verja heimilin í landinu frekari skakkaföllum. Það verður ekki gert með þessari lántöku einni saman, lífsnauðsynlegt er að frekari aðgerðir og ábyrg og styrk hagstjórn … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst velvirðingar á því að ónáða í miðri ræðu en vill spyrja hv. þingmann hvort þingmaðurinn eigi langan tíma eftir. Það hefur verið hugmyndin að gera hlé núna klukkan eitt til klukkan hálftvö þannig að ef einhver tími er eftir af ræðunni þá óska ég eftir að þingmaðurinn fresti lokum ræðunnar svo tóm gefist til andsvara.)

Frú forseti. Ég á tvær mínútur eftir og óska eftir að fá að ljúka henni.

Æðsta skylda stjórnvalda er að verja heimilin í landinu frekari skakkaföllum. Það verður ekki gert með þessari lántöku einni saman. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagði fram ítarlegar tillögur um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika fyrr á þessu þingi og fylgja þær hér með sem fylgiskjal. Þá vill minni hlutinn minna á 43. og 44. gr. fjárreiðulaga sem kveða á um hvenær leita skuli eftir heimildum til frekari fjárráðstafana af hálfu ríkissjóðs en fjárlög gera ráð fyrir. Það fylgir einnig með sem fylgiskjal. Það er einnig mat minni hlutans að leita eigi nú þegar eftir heimildum fyrir umræddri lántöku ríkissjóðs í fjáraukalögum.

Frú forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir nefndaráliti minni hlutans sem ég skipa, þar sem stuðningur okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þessa lántökuheimild er skilyrtur við að gripið verði til frekari aðgerða eins og ég hef rakið.