135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[13:05]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðasta atriðið tel ég að það væri þinglegast og samkvæmt fjárreiðulögum að hér væri lagt fram frumvarp til fjáraukalaga sem kvæði á um þessar heimildir. Ég minni því á það sem stendur í 43. gr. fjárreiðulaga, með leyfi forseta:

„Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.“

Það er líka gert ráð fyrir því að þessarar heimildar sé aflað fyrirfram en ekki eftir á. Þess vegna er það mín skoðun að það eigi að vera svo.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við styðjum þetta frumvarp á þeim forsendum sem ég rakti hér, þ.e. að það hafi þann tilgang að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans og þar af leiðandi líka íslenskan fjármálamarkað og lánshæfismat bæði ríkissjóðs og fjármálastofnana. Á þeim forsendum styðjum við þetta mál.

En við bendum hins vegar á að þetta á sér varla hliðstæðu og afar litlar upplýsingar fylgja með. Við teljum að til að ná þeim árangri sem að er stefnt verði að fylgja frekari aðgerðir í efnahagsmálum þar sem enn frekar er staðinn vörður um almenning og hag almennings í landinu og einnig að bönkunum verði gert að skipta upp annars vegar viðskiptabankahluta sínum og hins vegar almennum fjárfestingarsjóði þannig að því sé ekki blandað saman. Við teljum það mjög mikilvægt, frú forseti.