135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[14:55]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um heimild til ríkissjóðs til að taka á árinu 2008 allt að 500 millj. kr. lán til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans annars vegar og innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað hins vegar. Þessi ráðstöfun sýnir svo ekki verður um villst þau gríðarlegu hagstjórnarmistök sem orðið hafa á undanförnum mánuðum, missirum og árum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður þessar aðgerðir en með ströngum skilyrðum. Þau eru rakin í ítarlegu nefndaráliti þar sem þess er m.a. krafist að hafinn sé aðskilnaður, lög sem skilja að almenna viðskiptahlið bankanna og fjárfestingarsjóði, að gripið sé til víðtækra aðgerða til að standa vörð og styrkja stöðu heimila og atvinnulífs í landinu. Þessi aðgerð ein og sér dugar ekki, herra forseti.