135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[15:16]
Hlusta

Frsm. minni hluta samgn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. formanns samgöngunefndar stend ég ekki að áliti meiri hluta samgöngunefndar um frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar og skila þar sérstöku minnihlutaáliti, á þskj. 1120. Ég vil fara aðeins yfir það og færa fram þær röksemdir sem þar koma fram.

Minni hluti nefndarinnar hefur miklar efasemdir um þetta mál og hvernig það er úr garði gert og margvíslegar athugasemdir við efnisþætti þess. Fyrsta athugasemdin sem ég vil gera í þessu sambandi er við þá leið sem hér er farin en lagt er til í frumvarpinu að stofna sérstakt hlutafélag um starfsemi sem að öllu leyti á að vera í höndum hins opinbera. Það er að mínu viti engin ástæða til að koma opinberri starfsemi, þar með talið stjórnsýslu, undir hlutafélagaformið eins og hér er lagt til og væri nær að starfsemin væri á hendi stofnunar sem væri B-hluta fyrirtæki. Með þessari breytingu er m.a. breytt réttarstöðu starfsmanna á svæðinu. Þeir verða ekki lengur opinberir starfsmenn og njóta þar af leiðandi ekki réttinda sem slíkir og það er auðvitað umhugsunarefni að hægt sé með lagasetningu af þessum toga að breyta réttarstöðu starfsmanna. Með því að búa til hlutafélag um starfsemi sem áður hefur verið á hendi hins opinbera verður réttarstaðan lakari án þess að starfsmennirnir hafi nokkuð um það að segja eða komi að nokkru leyti að samningum þar að lútandi. Þetta tel ég vera ranga leið og sérstaklega þegar um er að ræða starfsemi sem er stjórnsýslustarfsemi að lögum eins og hér er um að ræða.

Ég geri líka athugasemd við 2. mgr. 4. gr. þar sem félaginu sem hér á að stofna er heimilað að gera „hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt“, eins og þar stendur, og ég vil í þessu sambandi vísa m.a. í umsögn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna um öryggisviðbúnað á vellinum. Ég tel að umfjöllun meiri hlutans um þetta atriði í nefndaráliti sé ekki nægileg trygging fyrir því að öryggismál verði með sama hætti og verið hefur. Í umsögn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er sérstaklega vikið að þessu og sömuleiðis er fjallað um öryggismálin, slökkviliðs- og eldvarnaeftirlitið í umsögn frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli þar sem beinlínis er lagt til að ný grein komi inn í frumvarpið sem fjallar um slökkviliðið á vellinum og eldvarnaeftirlit. Frumvarpið sjálft gerir sem sagt enga grein fyrir því að það sé starfrækt slökkvilið á Keflavíkurflugvelli. Þetta tel ég algjörlega óviðunandi og að það hefði átt að taka inn hugmynd frá Flugmálastjórn á flugvellinum um sérstaka grein um starfsemi slökkviliðs.

Ég tel líka að skipulagsmálin séu ekki í eðlilegum farvegi í frumvarpinu. Hér er flugvallarsvæðið skilgreint sem sérstakt skipulagssvæði. Jafnvel þótt nú sé verið að gera þá breytingu að flytja þetta að hluta til úr hernaðarlegri starfsemi yfir í borgaralega starfsemi er eftir sem áður ákveðið hér að flugvallarsvæðið sé skilgreint sem sérstakt flugvallarsvæði. Þannig er stjórnsýslu viðkomandi sveitarfélaga sem hlut eiga að máli ýtt til hliðar og þar með yrði hið lýðræðislega umboð sem sveitarstjórnirnar hafa frá íbúum og bera pólitíska ábyrgð á að engu, en þær bera m.a. pólitíska ábyrgð á skipulagsmálum. Ég tel að þetta sé óviðunandi og með ákvæðunum um að ákvarðanir skipulagsnefndar séu endanlegar á sveitarstjórnarstigi er verið að færa lýðræðislegt vald til stjórnskipaðrar nefndar þvert á venjulega stjórnskipun.

Hér er t.d. ekki vikið að því að skipulagsákvarðanir sem þetta stjórnvald tekur séu kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og þar með eru réttarúrræðin sem eru í gildi í almennu skipulagslögunum tekin úr sambandi á þessu svæði. Þetta finnst mér líka algerlega óviðunandi. Ég held að þetta sé ekki með ráðum gert, ég held að þetta sé einfaldlega vanhugsað.

Breytingartillaga meiri hlutans um skipan skipulagsnefndar er að mínu mati til bóta, enda gerði upphaflegt frumvarp ráð fyrir að Skipulagsstofnun ætti bæði aðild að skipulagsnefnd svæðisins og enn fremur kæmu skipulagsákvarðanir nefndarinnar til Skipulagsstofnunar og það var augljóst að slíkt fyrirkomulag gat ekki staðist. Ég tel því að sú breytingartillaga sé jákvæð og til bóta. Ég tel þó hins vegar að þetta breyti engu um þá gagnrýni sem ég hef uppi á skipan nefndarinnar eða skipan þessara mála.

Ég bendi líka á að hið sama megi segja um ákvæði 9. gr. en hún felur þessu opinbera hlutafélagi skyldur sveitarstjórnar samkvæmt vatnalögunum, m.a. að því er varðar holræsamál, lög um vatnsveitur sveitarfélaga, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um gatnagerðargjald. Öllum skyldum sveitarstjórnar samkvæmt þessum lögum er varpað yfir á opinbert hlutafélag. Ég tel að þetta standist illa skoðun góðrar stjórnsýslu. Ég held reyndar að þetta fyrirkomulag sé í hrópandi mótsögn við lýðræðislega stjórnarhætti. Staða þeirra sveitarfélaga sem eiga hlut að máli verður einnig óljós og að mínu viti óviðunandi því að þau verða komin undir ákvörðunum hlutafélags um mikilvæg hagsmunamál sín, svo sem um fasteignagjöld, og má í því sambandi vísa til umsagnar frá Sandgerðisbæ þar sem þetta viðhorf er áréttað. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Það er skoðun bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar að gott hefði verið að sjá skýrari mynd af þeirri væntanlegu útfærslu eða gleggri drög í greinargerð eða inngangi frumvarpsins.“

Síðan segir:

„Hið nýja félag verður þannig blanda af einkafyrirtæki og aðila með ákveðna framkvæmd stjórnsýslu, að hluta til einhvers konar sveitarfélagsígildi. Vert er að íhuga hvort samkeppnislöggjöfin gæti ekki reynst vera erfiður ljár í þúfu þessarar fyrirtækjasamstæðu til lengri tíma litið.“

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Að mati bæjarstjórnar vantar í frumvarpið með hvaða hætti fyrirhugað er að Sandgerðisbær komi að málinu og þá ekki síður hvernig verði háttað með þjónustutekjur og gjöld er tengjast rekstri og skattheimtu sveitarfélaga.“

Í lokin segir í umsögn Sandgerðisbæjar, með leyfi forseta:

„Bæjarstjórn leggur áherslu á að það komi skýrt fram í frumvarpinu hver hin samningsréttarlega staða bæjarfélagsins í væntanlegum samningaviðræðum við þetta nýja félag sé, bæði varðandi það hvað sé fyrirhugað að semja um við bæjarfélagið sem og hver staðan verður ef ásættanlegir samningar nást ekki frá sjónarmiði bæjarfélagsins eða félagsins.“

Þessi umsögn undirstrikar sem sagt þessar áhyggjur eða ég vil segja fyrirvara minn og afstöðu gagnvart stjórnkerfinu sem verið er að koma upp á þessu svæði.

Varðandi skipulagsmálin, sem ég hef þegar nefnt, vil ég líka árétta að hér er gert ráð fyrir því að ákvæði sé í frumvarpinu um að sveitarfélög sem gera svæðisskipulag verði bundin af aðalskipulagi þess svæðis. Þetta skýtur auðvitað skökku við og þýðir að rétthæð skipulagsáætlana verður í mótsögn við hina almennu reglu í skipulagslögum. Hér er gert ráð fyrir því að ef sveitarfélögin á svæðinu hafa með sér svæðisskipulag muni það þurfa að víkja fyrir aðalskipulagi sem skipulagsnefnd flugvallarsvæðisins gerir fyrir það svæði sem lýtur ekki almennum lögmálum skipulagslaga, er ekki kæranleg að því er séð verður og hagsmunaaðilar hafa engan möguleika á að hafa áhrif á með sama hætti og aðrar skipulagsáætlanir. Hér er því að mínu viti verið að taka stjórnsýsluna og kasta henni að verulegum hluta til hliðar og skapa réttaróvissu hvað þetta snertir.

Þetta sjónarmið kemur einnig fram í umsögn Skipulagsstofnunar, þar sem m.a. segir, með leyfi forseta:

„Að mati Skipulagsstofnunar er um of afdráttarlaust orðalag að ræða og telur stofnunin að réttara væri að samvinnunefnd um svæðisskipulag Suðurnesja væri heimilt að gera tillögu að svæðisskipulagi þótt hún stangaðist að einhverju leyti á við gildandi aðalskipulag vallarsvæðisins. Slíka tillögu væri hins vegar ekki hægt að staðfesta nema að fengnu samþykki yfirvalda á Keflavíkurflugvelli.“

Svo segir hér áfram:

„Skipulagsstofnun bendir einnig á að í framkomnu frumvarpi til skipulagslaga, 374. mál, er nú liggur fyrir Alþingi, er kveðið á um rétthæð skipulagsáætlana.“

Það sem hér er gert ráð fyrir fer því í bága við þessa almennu reglu í skipulagslögum. Þó að um þetta sé fjallað í nefndaráliti tel ég að það standist engan veginn þegar á hólminn er komið.

Ég tel líka nauðsynlegt að taka fram að þegar ákveðið var að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands árið 2006 hafði þáverandi stjórnarandstaða, sem samanstóð af Samfylkingu, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslynda flokknum, efasemdir um að hlutafélagaformið væri hið rétta og vildi láta skoða fleiri leiðir. Mér sýnist að ekki hafi verið vilji til þess að gera það nú, að skoða aðra leið, svo sem B-hluta ríkisfyrirtæki, og ég tel að það hefði verið brýnt að fá ríkisendurskoðanda til fundar við nefndina til að fjalla um kosti og galla opinberra hlutafélaga og þá reynslu sem þegar hefur fengist af slíku rekstrarformi. Vegna þess að nú þegar er komin nokkur reynsla á rekstur opinberra hlutafélaga sem ekki hefur verið metin og mér finnst ekki rétt að fara með starfsemi sem er að verulegu leyti til stjórnsýslustarfsemi inn í þetta form án þess að menn a.m.k. skoði hvaða reynsla hefur fengist af því.

Ég hef þegar nefnt hluti sem varða réttindi starfsmanna vegna þess að við breytingu á rekstrarformi úr hefðbundinni ríkisstofnun og yfir í hlutafélag eða opinbert hlutafélag er hætta á því að réttindi starfsmanna skerðist að einhverju leyti. Mörg dæmi eru um þetta og stéttarfélög starfsmanna hafa einmitt verið að vara við þessu atriði. Ég vil þó láta þess getið að meiri hlutinn hefur í breytingartillögum sínum komið til móts við sjónarmið starfsmanna að því er varðar lífeyrismálin og það er jákvætt að það er gert. Eftir sem áður er verið að breyta réttarstöðu starfsmanna sem áður voru opinberir starfsmenn og verða nú starfsmenn í hlutafélaginu.

Ég tel að með hlutafélagaforminu skapist líka réttaróvissa um gildi stjórnsýslu- og upplýsingalaga og um réttindi starfsmanna. Enda þótt tiltekið sé í greinargerð að ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga gildi að því er varðar stjórnsýsluhlutverk félagsins, þá gilda þau almennt ekki í hlutafélögum, þ.e. upplýsinga- og stjórnsýslulög. Ef ætlunin er að láta þau ná til opinbers hlutafélags ætti að mínu mati að kveða skýrt á um það í lögunum sjálfum með beinum hætti. Ég vil í þessu sambandi benda á að umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um upplýsingalögin í opinberu hlutafélagi og í umfjöllun hans kemur m.a. fram að stjórnendur opinberra hlutafélaga virðast ekki í öllum tilvikum gæta þess nægilega að virða upplýsingalög og vísa ég þar í tiltekið mál nr. 5103/2007, frá umboðsmanni Alþingis. Ég tel því nauðsynlegt að setja þetta inn í frumvarpið og taka af allan vafa um þetta mál til þess að tryggja réttaröryggi borgaranna.

Ég vek athygli á því í nefndaráliti mínu að í þessu nýja hlutafélagi verður opinberri stjórnsýslu og samkeppnisrekstri blandað saman. Ég tel það afar óheppilegt og tel reyndar að það geti valdið vanhæfi stjórnsýsluhlutans í tilteknum tilvikum vegna þess að þeir aðilar sem stunda rekstur inni á flugvallarsvæðinu eða flugstöðvarsvæðinu geta þurft að sækja vissa hluti til, það má segja leigusalans sem er stjórnvaldið. Þarna held ég að geti orðið hagsmunaárekstrar og í því samhengi er vert að hafa í huga að Samkeppniseftirlitið sendi inn umsögn um málið, dagsetta 22. apríl, og reifar þessa stöðu sérstaklega í áliti sínu og segir m.a. í lok umsagnarinnar um þetta fyrirkomulag þar sem blandað er saman samkeppnisrekstri annars vegar og opinberri stjórnsýslu hins vegar í sama fyrirtækinu — eða þar er lagt til að þessu verði skipt upp á milli tveggja aðila. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að mati Samkeppniseftirlitsins er með því móti fullkomlega komið í veg fyrir hagsmunaárekstra og mögulega og í raun líklega samkeppnislega mismunun.“

Það er því viðhorf Samkeppniseftirlitsins að þetta fyrirkomulag muni að öllum líkindum leiða til samkeppnislegrar mismununar.

Ég tel, herra forseti, að þessi atriði hafi ekki verið nægilega vel gaumgæfð í vinnu nefndarinnar og þess vegna og með vísan til þeirra sjónarmiða sem ég hef sett fram í þessu máli tel ég að fjölmargir þættir þess séu enn þá vanreifaðir. Með vísan til þess legg ég til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu.

Það kemur einnig fram í nefndaráliti mínu að verði ekki fallist á frávísun sem ég teldi vera skynsamlegustu afgreiðslu málsins að þessu sinni, þ.e. að fá þau álitaefni sem hér eru uppi örlítið betur skoðuð, þá óska ég eftir því að málið gangi að nýju til nefndar og að ríkisendurskoðandi verði kallaður fyrir nefndina til umræðu um opinber hlutafélög almennt, með vísan til þess sem ég sagði áðan um það mál og jafnframt að skipulagsstjóri komi fyrir nefndina vegna ákvæða um meðferð skipulagsmála.

Þetta eru þær hugmyndir sem ég hef uppi um málsmeðferð í þessu atriði og ég náttúrlega óska eftir því og vonast til þess að Alþingi geti fallist á það að málið gangi til ríkisstjórnarinnar að nýju til frekari vinnslu með tilliti til þeirra athugasemda sem ég hef haft uppi og þess rökstuðnings sem ég hef fært fyrir þeim sjónarmiðum. Að öðrum kosti óska ég eftir því að málið gangi að nýju til nefndar milli 2. og 3. umr.