135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[15:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði hér í lokin varðandi tillöguna um að leggja til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnar þá sé ég í sjálfu sér enga ástæðu til þess á þessu stigi málsins. Málið var reifað í samgöngunefnd. Um það er ágreiningur og ég hef enga trú á því að komið verði til móts við sjónarmið hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar þó að málið fari til ríkisstjórnar.

Til vara hefur hv. þingmaður lagt til að málið gangi að nýju til nefndar og rökstuðningurinn fyrir þeirri tillögu er að það sé nauðsynlegt að fá sérfræðing á fund nefndarinnar til þess að fjalla almennt um opinber hlutafélög. Ég get svo sem tekið undir að það er ágætt að fjalla almennt um opinber hlutafélög, við höfum gert það hér í þingsal og við höfum líka gert það á fundum hv. samgöngunefndar. En ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til að tengja það þessu máli sérstaklega og kalla saman nefndina til að fjalla almennt um opinber hlutafélög og fá ríkisendurskoðanda eða aðra slíka aðila til að ræða það fyrir nefndinni. Ég sé enga sérstaka ástæðu til þess.

Ég er hins vegar fyllilega tilbúin til þess, eins og ég held reyndar að ég hafi nefnt við hv. þingmann í umræðum í samgöngunefnd, að taka heildstæða umræðu um opinber hlutafélög þegar samgöngunefnd fer að funda aftur í sumar. En að tengja það sérstaklega þessu máli, ég sé enga ástæðu til þess, hæstv. forseti.