135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[15:35]
Hlusta

Frsm. minni hluta samgn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að formaður nefndarinnar skuli hafa áhuga á því að fjalla almennt um opinber hlutafélög á þessu sviði. En ég tel að það sé gullvægt tækifæri til þess að gera það einmitt nú þegar verið er að leggja til að stofnað verði enn eitt opinbert hlutafélag þannig að menn fari ekki í þá umræðu eftir á þegar búið er að ganga frá stofnun þess heldur fari yfir kosti þess og galla og hvernig það hefur reynst. Ég nefni hér einnig skipulagsþátt málsins sem ég tel að sé mjög vanhugsaður að mörgu leyti. Ég hef miklar efasemdir um þá leið sem hér er farin og ég tel að verið sé að fara á svig við almenna stjórnsýslu í skipulagsmálum með því fyrirkomulagi sem hér er sett upp. Sjálfsforræði sveitarfélaganna sem hlut eiga að máli er algerlega sett til hliðar í fjölmörgum þáttum sem ég hef þegar rakið að því er varðar hluti eins og vatnalög, lög um vatnsveitur sveitarfélaga, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um gatnagerðargjald. Ég tel því að full ástæða sé til þess að ræða það frekar.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir að ekki muni neitt frekar verða komið til móts við þessi sjónarmið þó að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég segi nú í því sambandi: Lengi má manninn reyna. Það getur vel verið að menn mundu sjá ljósið ef þeir fengju það til frekari skoðunar. Ég er sannfærður um að það eru býsna sterk rök fyrir því að fara yfir vissa þætti þessa máls á nýjan leik og skoða það betur. Ég hvet mjög til þess að það verði gert. Það er ekki vegna þess að allt sé ómögulegt sem hér stendur heldur eru góð rök fyrir því að vissir þættir (Forseti hringir.) séu skoðaðir frekar og ég legg til að það verði gert.