135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[15:39]
Hlusta

Frsm. minni hluta samgn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Enda þótt sveitarfélögin á svæðinu hafi komið að málum og að einhverju leyti verið höfð með í ráðum koma fram efasemdir og viðvörunarorð úr þeirra ranni. Ég hef þegar getið um umsögn Sandgerðisbæjar sem á ríkra hagsmuna að gæta og er hún birt í fylgiskjali með nefndaráliti mínu, minnihlutaáliti. Þar koma fram vissar áhyggjur af stöðu þessara mála og að í raun sé ekki búið að hnýta alla lausa enda. Mér finnst það því vera málefnalegt innlegg í umræðuna sem er ekki hægt að horfa fram hjá og segja bara: Þetta kemur frá ríkisstjórninni og hún var örugglega mjög sátt við þetta.

Það er ekki óþekkt að málum sé vísað til ríkisstjórnar til frekari vinnslu. Ef fram koma röksemdir og rökstuddar athugasemdir við meðferð máls á þinginu um að vissa þætti þurfi að skoða frekar eða að þeir séu ekki nægilega skotheldir er ekkert óeðlilegt við það. Í því felst enginn áfellisdómur yfir ríkisstjórninni eða viðkomandi ráðuneyti. Það gerist oft hér að lagafrumvörpum frá ríkisstjórninni er breytt, stundum heilmikið. Það er vegna þess að í meðförum málsins koma upp sjónarmið, athugasemdir og umsagnir sem þinginu finnst eðlilegt að taka tillit til og í því felst enginn áfellisdómur yfir þeim sem leggur fram viðkomandi þingmál nema síður sé.

Það er ekkert í því af minni hálfu annað en að ég vil gjarnan að vel sé að þessum málum staðið og að allir endar séu vel hnýttir vegna þess að — og það er áreiðanlega sameiginlegt viðhorf okkar allra — það er gríðarlega þýðingarmikil starfsemi sem þarna fer fram. Það er mikilvægt að vel sé að henni búið og allir lausir endar hnýttir. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé ekki fyllilega gert með málinu eins og það liggur fyrir núna.