135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[15:45]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við tökum hér fyrir nefndarálit um frumvarp til laga um frístundabyggð frá félags- og tryggingamálanefnd. Nefndarálitið er mjög langt og ég ætla að reyna að stikla á stóru til að stytta tímann enda liggur þetta allt saman fyrir á þingskjölum.

Fyrsti hluti fjallar um alla þá sem komu í heimsókn til nefndarinnar og þá sem veittu umsögn. Við lokafrágang leitaði nefndin einnig til Helga Áss Grétarssonar, Sveins Guðmundssonar, lögmanns Landssambands sumarhúsaeigenda, og lögmanns Bændasamtaka Íslands, Más Péturssonar.

Tildrög frumvarpsins voru þau að talið var nauðsynlegt að setja ný heildarlög um frístundabyggð og frístundahús. Engin sérlög höfðu gilt um það og markmiðið var að setja lágmarksreglur fyrir slíka byggð og um innbyrðis samskipti leigjenda og leigusala. Við framsetningu frumvarpsins í byrjun kom fram hörð gagnrýni … [Jarðskjálfti.] — Þetta er nú ekki svona stórt mál. Ja hérna. Í trausti þess að allt sé með eðlilegum hætti annað en að húsið hristist hér. (Gripið fram í.) Já, ég tel málið ekki vera það stórt að ástæða sé til þess að húsið hristist en ég ætla að treysta á að engin hætta sé á ferðum og ætla að halda áfram málflutningi.

Ég tók það fram að við framlögn frumvarpsins í upprunalegri mynd kom fram hörð gagnrýni á að ójafnvægis gætti á milli leigutaka og leigusala þar sem réttur leigutaka til framlengingar þætti of afdráttarlaus og jafnræði milli leigutaka og leigusala ekki nægjanlegt, m.a. væri réttur leigusalans til þess að leysa til sín lóðina of takmarkaður. Þetta varð til þess að í meðförum nefndarinnar voru gerðar umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu og þeim breytingum var ætlað að taka mið af þeim ólíku sjónarmiðum sem hagsmunaaðilar hafa látið í ljós, sætta helstu ágreiningsefni aðila og virða rétt bæði leigutaka og leigusala og hafa samningsfrelsið í fyrirrúmi. Það er rétt að undirstrika þann þátt að við alla vinnslu frumvarpsins var gengið út frá því að meginreglan í umfjöllun um leigu og sölu á lóðum og á frístundahúsum væri sú að menn mundu ná samkomulagi. Tillögur nefndarinnar eru því gerðar með það að markmiði að aðilar að samningi um leigu á lóð undir frístundahús geri sitt ýtrasta til að leita samninga og sátta við lok leigusamnings. Ef samningar nást ekki er báðum aðilum gefinn kostur á úrræðum og um það er frumvarpið.

Fyrsti kaflinn í nefndarálitinu heitir Breyting á reglum um samskipti leigusala og leigutaka. Þar er lögð áhersla á samningslok tímabundins leigusamnings sem er að lágmarki til 20 ára og einnig er fjallað um uppsagnarfrest ótímabundins leigusamnings. Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir því að með tveggja ára fyrirvara á ótímabundnum leigusamningi og tveimur árum áður en tímabundinn leigusamningur rennur út fari í gang ákveðið ferli þar sem leigusali getur óskað eftir ákveðnum lokum á samningnum. Annars vegar geti hann óskað eftir því að leigan verði framlengd, hins vegar geti hann óskað eftir því að leysa til sín eignir á viðkomandi lóð. Það felur þá í sér að hann verður að kaupa eignirnar ásamt hugsanlegri verðmætaaukningu á lóðinni við slík lok. Um þetta eru ákveðin tímaákvæði og þess gætt að ef menn gleyma að gera kröfur samkvæmt þeim tímaákvæðum eru tómlætisákvæði, þ.e. að menn geti komið inn í og sett ferlið í gang svo að enginn sem hugsanlega gleymir í fyrstu lotu að óska eftir því með hvaða hætti lok samninga eigi að vera missi af því tækifæri — þetta getur verið af ýmsum ástæðum. Ef leigusali tilkynnir slíkt á hann að tilkynna leigutaka ákvörðun sína um leigusamninginn, ef það er hugsanlegt að leigja þar áfram er ákvæði um að leigan skuli þá vera til næstu 20 ára.

Ég ætla ekki að fara í gegnum þetta ferli allt saman, það skýrir sig sjálft í lögunum og er býsna flókið en við treystum á að það skýri sig sjálft.

Varðandi gildissvið laganna, sem er II. kafli, eru skerpt þau ákvæði sem koma fram í 1. gr. að lögin fjalli um leigu undir frístundahús sem eru tveir hektarar að stærð eða minni. Ekki er verið að fjalla um lönd eða jarðir heldur er verið að fjalla um afmarkaðar stærðir lóða, það er fjallað um þær lóðir. Aftur á móti gilda lögin um réttindi og skyldur umráðamanna og í sambandi við félagaaðild eingöngu um skyldur þeirra sem eru í frístundabyggð sem er búið að skilgreina í frumvarpinu sem byggð með tíu lóðum sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Varðandi leigutíma til 20 ára, lögin fjalla eingöngu um þá samninga sem eru til 20 ára eða lengri tíma, — ekki er þar með sagt að aðilar máls geti ekki gert styttri leigusamning en þá falla þeir samningar ekki undir lögin enda geta þá verið sérstakar ástæður fyrir því að samningur er gerður til styttri tíma og eðlilegt að um sé að ræða lok á þeim samningi án þess að slík ákvæði sem hér eru sett gildi um slíka samninga.

Þriðji kaflinn heitir Leiga á lóð undir frístundahús. Þar leggur nefndin til breytingar á II. kafla frumvarpsins, m.a. til að jafna stöðu leigutaka og leigusala. Við bætast nýjar greinar og ákvæði, 10.–14. gr., sem taka umtalsverðum breytingum. Eftir breytinguna er kveðið á um uppsögn og tilkynningar um leigulok í 10. gr., samningsfrelsi, framlengingu samnings um eitt ár og tómlætisverkan í 11. gr., málskotsrétt aðila og kröfugerð í 12. gr., mat á ársleigu framlengds leigusamnings í 13. gr., réttaráhrif innlausnar, innlausnarverð, lóðarbætur o.fl. í 14. gr., mat á kaupverði lóðar er fjallað um í 15. gr. og riftun leigusamnings í 16. gr. Taka má fram að varðandi riftun er með breytingartillögunum fjallað um að þar gildi almennar riftunarreglur sem gilda í samfélaginu.

Reiknað er með að þarna sé úrskurðarnefnd sem gegnir veigamiklu hlutverki og að settar verði reglur og viðmið við ákvörðun á leigu og innlausnarverð og þá reynt að miða við markaðsverð á hverjum stað og tíma. Ef um er að ræða innlausn er tekið fram að meta skuli eignir en jafnframt lóðarbætur ef um verulegar bætur á lóð er að ræða og sannanlega verðmætaaukningu og öfugt ef illa hefur verið hirt um lóðina eða hún rýrnað í verði megi það hafa áhrif á úrskurðinn líka.

Varðandi frístundabyggðina fjallar III. kafli frumvarpsins um réttindi og skyldur í frístundabyggð, það er varðandi félagsaðild og þar er fjallað um að stofna skuli félög þar sem um er að ræða sameiginlega hagsmuni, það er tekið sérstaklega fram. Það er tekið fram líka — þetta er sótt í hliðstæðu í fjöleignahúsalögunum — að ef lóðirnar eru ekki samliggjandi eða eiga takmarkaða eða enga sameiginlega hagsmuni þurfi ekki að stofna félag þannig að það eru nokkuð skýr ákvæði um þetta. En nefndin telur eðlilegt að menn stofni með sér félög um sameiginlega hagsmuni og því telur hún hóflegt að miða félagsskylduna við tíu lóðir í frístundabyggð eins og ég sagði áður en ekki sex eins og voru í frumvarpinu.

Einnig er tekið fram að ef þessar tíu lóðir sem mynda frístundabyggð eru meira og minna allar í eigu eins aðila, sem getur verið t.d. landeigandi, sé félagaaðild ekki skylda enda þjóni það litlum tilgangi ef einn aðili hefur þá óskorað meirihlutavald í slíku félagi.

Síðan er kafli hér um kærunefnd frístundabyggðamála sem breytist í rauninni í úrskurðarnefnd samkvæmt breytingartillögunum og nefndin leggur til töluverðar breytingar á þessum ákvæðum hvað varðar kærunefnd frístundabyggðamála, bæði hvað varðar inntak þeirra og niðurröðun. Það eru ábendingar um það varðandi skipunina, það hafa komið fram hugmyndir um að hún yrði skipuð hagsmunaaðilum. Nefndin telur það ekki rétt, það er jafnvel talað um að menn skuli sækja sér reynslu í sambærilegar nefndir eins og matsnefnd eignarnámsbóta og fleiri nefndir sem hafa verulega reynslu í slíku mati á markaðnum.

Með tilliti til þeirra atriða sem nefndin leggur til að úrskurðarnefnd frístundahúsamála hafi til hliðsjónar við ákvörðun leiguverðs framlengds samnings og ákvörðun innlausnarverðs og eftir atvikum söluverðs lands liggur fyrir að afla þarf ýmissa gagna og upplýsinga og reiknað er með því að hægt sé að sækja þessi gögn til þess að nefndin geti starfað eðlilega.

Við flýtum gildistökunni frá því áður var, sem var 1. september, til 1. júlí. Nefndin leggur þó til breytingu þannig að ákvæði samninga standi óhögguð um leigutíma, framleigu og framsal leiguréttinda, þ.e. ekki er verið að rifta þeim samningum sem eru í gildi. Þannig er gildandi samningssambandi aðila ekki breytt umfram það sem eðlilegt og nauðsynlegt er.

Það er ákvæði til bráðabirgða — þarna er talað um að það sé tveggja ára prósess þar sem þarf að ákveða við lok samningstíma — sem fjallar um þá sem eiga skemmri tíma eftir en eitt ár og

„… til að mæta þeim aðstæðum að samningur um leigusamning á lóð undir frístundahús renni út innan tveggja ára og því sé ekki hægt að bregðast við samkvæmt breyttri 10.–14. gr. frumvarpsins leggur nefndin til að sett verði inn bráðabirgðaákvæði sem veiti leigutaka rétt til að framlengja leigusamning um eitt ár frá samningslokum að telja en þó aldrei lengur en til 1. júlí 2010. Sú skylda er lögð á leigutaka að hann tilkynni leigusala um þessa fyrirætlun sína innan tveggja mánaða frá því að lögin taki gildi annars falli framlengingarréttur hans niður. Ef leigusamningur fellur niður á tímabilinu 1. júlí til 1. september 2008 getur leigutaki þó engu að síður öðlast framlengingarrétt ef hann sendir leigusala tilkynningu þess efnis fyrir 1. september 2008. Kemur þessi tilkynningarskylda í stað þeirrar sem kveðið er á um í tillögum nefndarinnar um breytingar á 10. gr. Hafa aðilar svigrúm til að semja um áframhaldandi leigu eða lok hennar en takist samningar ekki fara samskipti aðila að öðru leyti eftir breytingartillögum nefndarinnar við 12.–14. gr.“

Þetta er mjög hratt farið yfir langan texta og breytingartillögurnar eru hér í 24 liðum þannig að það er auðvitað ljóst að félags- og tryggingamálanefnd hefur tekið að sér að semja nýtt frumvarp til að reyna að ná sáttum um þessi mál.

Nefndin leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð var grein fyrir hér að framan og eru í nefndarálitinu og lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þeir sem skrifa undir nefndarálitið eru Guðbjartur Hannesson, Ármann Kr. Ólafsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson og Ögmundur Jónasson.

Það var rætt í nefndinni að setja þyrfti inn ákvæði í nefndarálitið um að endurskoðun færi fram á lögunum að fenginni reynslu eftir tvö til þrjú ár. Ég vil árétta það hér sem formaður nefndarinnar að ætlunin var að setja slíkt ákvæði inn en rétt að hafa í huga að það er mjög æskilegt þegar svona ný lög eru sett að framkvæmd þeirra verði skoðuð fljótlega aftur.

Að lokum vil ég þakka öllum fyrir mikla vinnu og öllum fulltrúum hagsmunasamtaka við að reyna að hjálpa okkur við að ná sátt um þetta mikilvæga og stóra mál. Að því sögðu óska ég eftir því að málið fái umfjöllun hér í þinginu og afgreiðslu.