135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:16]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Álit mannréttindanefndarinnar er ótvírætt. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Úthlutaðir kvótar sem upprunalegir kvótahafar nota ekki lengur geta verið seldir eða leigðir á markaðsverði í stað þess að vera skilað til ríkisins og endurúthlutað til nýrra handhafa í samræmi við sanngjörn og réttlát viðmið. Aðildarríkið hefur ekki sýnt fram á að þessi sérstaka gerð og tilhögun við útfærslu kvótakerfisins samræmist kröfunni um sanngirni.“

Sama gildir um það að kerfið hefur fengið á sig mynd einkaeignarréttar.

Í frumvarpi til laga um staðfestingu mannréttindasáttmála Evrópu frá 1993 er gerður samanburður á mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og þar segir beinlínis, með leyfi herra forseta:

„Í valfrjálsri bókun við Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi er kveðið á um rétt einstaklinga til að senda mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna erindi út af skerðingu þeirra réttinda sem lýst er í samningnum. Nefndin kannar erindin og kemur síðan sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn. Ísland er eitt þeirra ríkja sem hefur skuldbundið sig til að hlíta kærum einstaklinga á hendur sér samkvæmt þessari bókun.“

Hér gildir hið fornkveðna pacta sunt servanda, samninga ber að virða, sem er elsta regla að þjóðarrétti. Íslenska ríkið er skuldbundið de facto að virða þessa niðurstöðu. Viðbrögð hæstv. sjávarútvegsráðherra fullnægja ekki samningsskuldbindingum Íslands. Það er algjörlega borðleggjandi. Lýsa yfir vilja og svo er engu svarað hver úrræðin eiga að verða. Það er algjörlega óþolandi, hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það að selja og leigja kvóta án þess að hann komi til endurúthlutunar er brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að sama skapi er það brot á jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar sem gengur lengra en mannréttindayfirlýsingin (Forseti hringir.) ef eitthvað er.