135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:19]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir að hafa efnt það fyrirheit sem hann gaf í svari við fyrirspurn minni í mars í vetur í ræðu í þinginu að hann mundi tilkynna hinu háa Alþingi hvernig hæstv. ríkisstjórn brygðist við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og það sem meira er að virða niðurstöðu nefndarinnar.

Einhverjir kunna að verða fyrir vonbrigðum með það að í svarinu felast ekki beinar og skýrar aðgerðir með hvaða hætti skuli komið til móts við jafnræðisregluna sem mannréttindanefndin telur að hafi verið brotin. Einnig kann að vera einhver óánægja með að ekki er viðurkenndur réttur eða skylda til að greiða skaðabætur og líka er tekið fram að ekki verði um neinar kollsteypur að ræða í kerfi sem gilt hefur í tvo áratugi. Engu að síður er mikilvægt að hæstv. ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar viðurkennir og virðir álitið og mun bregðast við því. Enn fremur er boðað að efnt verði til endurskoðunar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu á næstunni með þær breytingar að leiðarljósi að komið verði til móts við kröfur mannréttindanefndarinnar, að fallist er á niðurstöðu nefndarinnar. Með öðrum orðum, að lögum og reglum verði breytt í samræmi við jafnræðisregluna.

Þetta tel ég ásættanlegt svar og mikilvægt og ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir þann myndugleika. Við endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins verður jafnræðisreglan þungamiðjan og það er mjög stór áfangi sem við getum glaðst yfir. Það er stórt skref í deilumáli sem Íslendingum ber skylda til að ná sátt um.