135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá talsmönnum Sjálfstæðisflokksins að ekki þurfi að fara að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. (Gripið fram í.) Þess vegna hlýtur það að vera mjög mikilvægt að við fáum inn í þingið þau svör sem ríkisstjórnin hyggst leggja fyrir þingið til að fullnægja þessu áliti. Það eru einungis 11 dagar þangað til búið á að vera að skila þessu svari. Ég hefði talið eðlilegast að þingið fjallaði um þessi svör, að það fengi málið til meðhöndlunar. Ekkert slíkt hefur verið gert heldur er það unnið einhvers staðar utan við þingið.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu fram í vetur tillögur bæði hvað varðar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, lagt til að sett verði sólarlagsákvæði í núverandi fiskveiðistjórnarlög til að knýja á um endurskoðun þeirra, og einnig höfum lagt fram tillögur um að þessi mál skuli fara í ítarlega skoðun af hálfu þingsins. Sú umræða hefur ekki verið tekin hér. Við höfum líka lagt fram ítarlegar tillögur og hugmynd að svörum, meira að segja við áliti mannréttindanefndarinnar, breytt fiskveiðistjórn, þar sem við m.a. leggjum til að bætt verði inn í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða og hún hljóði þannig:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu um leið og jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttar og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.“ — Við setjum þarna alveg ótvírætt jafnræðisákvæði inn í fiskveiðilögin. — „Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“