135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[16:55]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða mjög mikilvægt mál, eitt stærsta mál sem kom inn á borð félags- og tryggingamálanefndar síðastliðið haust og á þessu vori því að við höfum verið með þetta mál lengi til meðhöndlunar á vettvangi nefndarinnar og náð mjög góðum árangri í því samstarfi og í því mikla starfi sem hefur verið unnið innan nefndarinnar enda er þetta mál í allt öðrum búningi en þegar hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra lagði það fram á haustdögum árið 2006.

Forsaga þessa máls er sú að landeigendur, mestan part bændur, og leigutakar undir lóð á sumarhúsum hafa átt mjög góð samskipti og viðskipti sín á millum undanfarna áratugi. Mikil samskipti hafa einkennt þau viðskipti, kannski ekki hvað síst af hálfu landeigenda eða bænda um leigukjör á þessum lóðum.

Á undangengnum árum hafa orðið miklar breytingar í þjóðfélagsskipan hér á landi sem hafa leitt það af sér að efnaðir einstaklingar, viðskiptamenn, hafa séð mikil tækifæri í ljósi þeirrar löggjafar sem um þessi mál gilda — eða „ekki“ löggjafar — að kaupa í umtalsverðum mæli lönd af bændum og hækka síðan leiguna á þeim aðilum sem hafa leigt land af viðkomandi bónda jafnvel um áratuga skeið. Við þessu þurfti að bregðast og ég veit að hæstv. forseti sem hér situr, sem er fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra, þekkir þessa forsögu vel en það þurfti að grípa til einhverra úrræða til að tryggja stöðu leigjenda á þessum markaði því sumir leigusalar sem nýlega höfðu keypt sér jarðir fóru fram með þeim hætti gagnvart sumarbústaðaeigendum að ekki varð við unað. Leigan var jafnvel tvö- eða þrefölduð eða margfölduð og ef fólk vildi ekki gangast inn á þá samninga hjá hinum nýju eigendum þá skyldu þeir gera svo vel að koma sér burt af viðkomandi jörð. Þarna gat ævistarf fólks verið að veði og ef við höfum það í huga að frístundahús í árslok árið 2006 voru 11 þúsund þá er augljóst að málefni frístundabyggða snerta gríðarlega stóran hluta landsmanna. Við erum að tala um tugi þúsunda Íslendinga sem hafa beina hagsmuni af því hvernig við vinnum að þeim málum sem við ræðum hér fyrir utan þann mikla fjölda landeigenda sem vill að sjálfsögðu að þessi markaður sé heilbrigður og sé starfræktur í þeirri sátt sem ríkt hefur á undanförnum áratugum. Fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Magnús Stefánsson, setti af stað nefnd með hagsmunaaðilum sem átti að undirbúa mál til að leysa úr þeim vandkvæðum sem upp voru komin. Sú nefnd skilaði af sér drögum að þingmáli en því miður í ljósi þess að stutt var til síðustu kosninga þá vannst ekki tími til að leggja það mál fram í þinginu heldur var það einungis látið liggja og nýr ráðherra tók við því sem var í prýðilegri sátt, hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir því núverandi hæstv. forseti var þá ekki lengur félagsmálaráðherra.

En hvað gerist þegar búið er að ná tiltölulega góðri sátt á milli landeigenda og leigjenda þeirra? Ráðherra ákveður einhliða að semja nýtt frumvarp sem gengur þverlega gegn hagsmunum landeigenda og þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir málinu síðasta haust var það komið í háaloft. Það kom upp bullandi ágreiningur úti í samfélaginu um það frumvarp sem ráðherrann lagði fram nær einhliða og án samráðs við helstu hagsmunaaðila. Þegar umsagnir fóru að berast um þetta ágæta mál til okkar í félags- og tryggingamálanefnd varð maður dálítið uggandi um hvers lags stjórnarfar væri í þessu landi. Ég ætla að ganga svo langt að segja að ráðherra skuli voga sér að leggja fram frumvarp í þeim búningi sem það var lagt fram á haustdögum er ekki hægt að finna mörg fordæmi fyrir.

Maður hlýtur að spyrja sig hvað hafi orðið um þau samráðsstjórnmál sem voru boðuð hjá Samfylkingu í aðdraganda síðustu kosninga. Því miður eru þau af skornum skammti en ákvarðanir eru teknar einhliða án samráðs við hlutaðeigandi aðila. Það var vissulega erfitt fyrir núverandi formann félags- og tryggingamálanefndar, hv. þm. Guðbjart Hannesson, og okkur öll í félags- og tryggingamálanefnd, að eiga við þetta mál og að lesa þær umsagnir sem bárust en ég vil vitna til einnar þeirra, en í umsögn Húseigendafélagsins um frumvarp til laga um frístundabyggð segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Húseigendafélagið mælir eindregið gegn því að þetta frumvarp verði að lögum í núverandi mynd. Félagið telur að betri sé bið en bráðræði og mælir með því að frumvarpið verði skoðað nánar og því breytt eða samið nýtt þar sem nauðsynlegt jafnvægi er milli réttinda og skyldna aðila og þannig að ekki leiki vafi um gildi þess gagnvart stjórnarskránni.“

Undir þessa umsögn skrifaði Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins. Hvað á sá ágæti maður við þegar hann vitnar um brot gagnvart stjórnarskránni? Hann var ekki sá eini sem sendi umsókn sem kvað á um að trúlega værum við að ganga gegn einkaeignarrétti sem nyti verndar stjórnarskrárinnar en síðar í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Eignaréttur að landi og lóðum fyrir frístundahús nýtur verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Með frumvarpinu er eignaréttur leigusala skertur mjög og í sumum tilvikum jaðrar við eignaupptöku; eignarnám, leigunám. Rökin sem færð eru fram fyrir því eru ekki nægilega traust og góð og hrökkva ekki til. Þótt verð á landi og lóðum hafi hækkað þá dugir það ekki og heldur ekki að ráðstöfunarréttur hafi rýmkast með nýjum jarðarlögum. Engir almannahagsmunir kalla á að gengið sé svo freklega á eignarrétt landeigenda. Ein rökin sem frumvarpshöfundar færa fram eru þau að það sé löng hefð fyrir því að grípa inn í réttindi yfir fasteignum og því sé réttlætanlegt að gera það áfram. Löng saga um vonda meðferð réttlætir aldrei áframhaldandi barsmíðar.“

Svona voru fjölmargar umsagnir sem við fengum í nefndinni og því var það ákveðið nokkuð snemma í ferlinu þegar þessi veruleiki rann upp fyrir okkur nefndarmönnum, alveg sama í hvaða flokki við stóðum, að við yrðum hreinlega að semja nýtt frumvarp sem er niðurstaðan sem við ræðum hér, því miður á síðustu stundu þingsins. Þetta frumvarp sem formaður og nefndarmenn hafa lagt mikla vinnu í er í 24 liðum og því er í raun og veru ekki hægt að segja að við séum að gera endurbætur á því frumvarpi sem er lagt fram því hér er hreinlega um nýtt mál að ræða. Þetta er að mörgu leyti mjög gott mál því, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á, þá höfum við þingmenn verið í samskiptum við hagsmunaaðila í þessu máli. Við höfum stundað samræðustjórnmál í þessu máli eftir að hæstv. ráðherra henti handónýtu máli í félags- og tryggingamálanefnd og ég held að við höfum unnið nokkuð vel að þessu. Það þarf örugglega að lesa þessa löggjöf yfir þegar fram líða stundir því þótt við höfum gert okkar besta í þessu þá var ekki mikill tími til að klára þetta mál en ég tel mig geta staðið að því án nokkurs fyrirvara því ég held að öllum sé greiði gerður að bæta það umhverfi sem er á markaðnum, bæði gagnvart því fólki sem leigir sumarhúsalóðir af landeigendum og ekki síður gagnvart landeigendum sjálfum, bændum. Þetta mál er því ákveðin málamiðlun á milli þessara tveggja sjónarmiða. Það standa allir þingflokkar að þessu en ég tek undir með síðasta ræðumanni. Það á ekki að líðast að þingnefndum sé gert að fá slík mál upp í hendurnar sem búið er að klúðra alveg gersamlega, mál sem eru komin upp í háa loft og því vil ég segja það nefndinni til hróss að hún hélt vel á þessu máli. Þetta var vandasamt mál en ég held að við höfum náð góðri lendingu sem mun stuðla að heilbrigðari markaði á þessu sviði um ókomna tíð.