135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[17:08]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fá það alveg skýrt fram hvort það sé nokkur misskilningur að hv. þingmaður hafi verið að lýsa yfir því að hann væri mjög sáttur við frumvarpið eins og það var lagt fram þar sem þeir sem ekki eiga landið fá að ráða því hversu lengi þeir hafa það undir höndum. Þeir fá að framleigja það þriðja aðila án leyfis landeiganda og hirða af því allar tekjur og verðmætisauka sem orðið hefur á leigutímanum.

Hann er fullkomlega sáttur við frumvarp sem er lýst í umsögnum sem eignaupptöku. Ef ég hef skilið ummæli þingmannsins rétt er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en að hann sé mjög sáttur við þetta, þ.e. að hann sé þá í raun og veru enn þá á þeirri skoðun að þjóðnýting sé á dagskrá í íslenskum stjórnmálum.