135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[17:10]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski rétt að ég leiðrétti sjálfan mig aðeins því þetta er auðvitað ekki dæmi um þjóðnýtingu, þetta er kannski hið gagnstæða þar sem einstaklingur fær í raun og veru eignarrétt yfir eign annars einstaklings með lagasetningu, þar sem eign er tekin og forræði eignar er tekið úr höndum þess sem á hana og með þeim hætti að um eignaupptöku er að ræða í raun og veru. Mér fannst hv. þingmaður vera dálítið að draga í land með stuðning sinn við þau áform sem frumvarpið lýsti í upphafi. Ég fagna því að hann er ekki eins ákveðinn í stuðningi við þetta háttalag og virtist vera í fyrri ræðu hans.

Það má yfirfæra þetta yfir á aðra eign en land, t.d. íbúðarhúsnæði, og ímynda sér hvernig þetta liti út ef við settum í lög um meðferð íbúðarhúsnæðis sem leigt er út ákvæði sem væru á þann veg að leigutakinn gæti einhliða ákveðið að framlengja leigusamningnum til allt að 25 ára án þess að sá sem ætti íbúðina hefði neitt um það að segja og það tæki hann 12 ár að losa sig við leigutakann. Og þó að allir vilji hafa skynsamlega löggjöf sem gætir að réttindum þeirra sem taka á leigu, hvort sem það er land eða íbúð, þá sjá auðvitað allir sanngjarnir menn að þetta er ekki hægt. Þetta frumvarp gekk allt of langt og í því eru athugasemdir mínar fólgnar, virðulegi forseti.