135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[17:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þegar þetta frumvarp var kynnt upphaflega í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafði ég fyrirvara við það eins og fleiri og hafði grun um að það bryti ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar, bæði félagafrelsi og eignarrétt o.s.frv., fyrir utan það að ganga á samningsrétt. Þegar málið kom inn í hv. félags- og tryggingamálanefnd lagði ég mikla áherslu á að reynt yrði að finna einhverja aðra lausn á þessum vanda. Vandinn er sá að landverð hefur hækkað mjög mikið, sem er gott fyrir bændur í sjálfu sér. Vegna lækkandi vaxta, vegna nýrra jarðalaga, vegna sölu á Lánasjóði landbúnaðarins o.s.frv. og vegna lækkandi vaxta á heimsmarkaði hefur verð hækkað mjög mikið hjá bændum. Menn sem eru í viðskiptum hafa komið þarna inn en áður fyrr var þetta ósköp notalegt og elskulegt samband á milli bænda og sumarhúsaeigenda, menn borguðu kannski stundum eitt lambsverð eða eitthvað slíkt. Það kom upp mikil þvingun á leigjendur þegar menn fóru að beita ákveðinni hörku, einstaka maður, ég undirstrika það, alls ekki allir.

Hins vegar er mjög nauðsynlegt bæði fyrir bændur og þá sem leigja land, landleigjendur, að samskiptin séu góð, það er verulega mikilvægt. Það er óþolandi fyrir báða aðila ef einhver illindi eru í gangi, það er bara óþolandi í mannlegum samskiptum, af því þetta fólk er mjög náið. Sumarhúsaeigendur þurfa oft að fara í gegnum lönd bænda, opna hlið og annað slíkt og bændur þurfa að fara yfir lönd sumarbústaðaeigenda og þetta byggir því á mjög góðum samskiptum. Það var þess vegna hvati til að reyna að finna einhverjar aðrar lausnir sem hefðu leyst þennan vanda og þá mundi ég eftir því að í ábúðarlögum og ég held líka í þýskum leigulögum að ef leigjandi íbúðar eða lands bætir eignina með einhverjum framkvæmdum eigi hann að fá það greitt þegar leigu er lokið. Þetta var það sem vantaði inn í dæmið til að sátt næðist. Og það er einmitt það sem kemur inn í þetta nýja frumvarp, því að ég vil kalla þetta nýtt frumvarp sem við komum hérna með, herra forseti. Meginatriðið í þessu nýja frumvarpi er að samningsfrelsið er haft í hávegum en áður var samningsnauðin höfð í hávegum í frumvarpinu. Menn voru þvingaðir til samninga aftur og aftur, þ.e. landeigendur, en nú er stuðlað að samningsfrelsi og það er auðvitað miklu betra í samskiptum fólks að það geri samninga af frjálsum vilja.

Lausnin fólst í því að menn þurfa að uppfylla ákveðin formsatriði. Landeigandinn getur boðið leigjandanum tvo kosti, annars vegar að leigja landið áfram til 20 ára á einhverju verði sem yrði metið hvað ætti að vera hátt og hins vegar að kaupa til baka þær jarðarbætur sem leigjandinn hefur gert á landinu og sumarbústaðinn og öll mannvirki. Þarna jafnast allt í einu aðstaða manna því að bóndinn eða landeigandinn þyrfti þá að reiða fram mikið fé til að kaupa skógræktina, vatnsveituna, rafmagnsveituna, vegalagninguna o.s.frv. og bústaðinn. Hann er þá í þeirri stöðu að vera frekar á því að leigja áfram. Þannig myndast þrýstingur hjá báðum aðilum að ná sáttum. Ef landleigjandinn sættir sig ekki við þá tvo kosti sem landeigandinn getur valið á milli, annaðhvort að framleigja ef hann vill það ekki eða kaupa landið til baka ef landeigandinn velur það, þá getur hann alltaf sagt: Ég sætti mig við hvorugt, ég fer með bústaðinn af landinu. Og ef landeigandinn nýtir sér ekki að velja á milli þessara tveggja kosta, á leiguliðinn eða leigjandinn kost á því annaðhvort að leigja áfram til 20 ára með leigu sem yrði metin eða að fara burt með sitt hafurtask af lóðinni. Þegar sú staða er komin upp að bæði leigan er metin af nefnd sem til þess er ætluð og endurbæturnar metnar af nefnd sem til þess er ætluð ef landeigandinn velur þann kost, þá eru orðnir miklir hagsmunir fyrir báða aðila að semja, semja um áframhaldandi leigu eða endurkaup, semja um upphæð leigunnar o.s.frv.

Ég tel að þessi niðurstaða sé mjög góð og muni fækka verulega þeim ágreiningsatriðum sem upp geta komið, að báðir aðilar geti skotið því til nefndar hver leigan eigi að vera ef þeir óska eftir að leigja og hvert endurgjaldið eigi að vera ef landeigandi óskar eftir að kaupa eða að leigjandinn fer. Og þar sem menn vilja kannski ekki endilega sætta sig við einhverja óvissa niðurstöðu nefndar, matsnefndar, munu þeir mjög líklega semja. Ég held að niðurstaðan verði sú. Enda kom það í ljós þegar þessi niðurstaða var kynnt fyrir hagsmunaaðilum að þá var allt annar andi í þeim en áður. Það var orðið miklu meira jafnræði. Ég held að þetta sé góð lausn sem nefndin komst að niðurstöðu um og ég vona að gætt sé hagsmuna beggja aðila í þessu máli.