135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:08]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gerði athugasemdir við 1. umr. þessa máls og setti fyrirvara við þrjár greinar þessa frumvarps, þ.e. 6., 18. og 24. gr. þar sem fjallað er um gjaldtökuna. Síðan hefur málið farið í vinnslu nefndar og ég tel þá niðurstöðu sem þaðan er komin mjög góða að flestu leyti en set þó enn fyrirvara við breytingar á 6. gr. sem snúa að háskólaráði.

Ég ætla í stuttu máli að fara aðeins yfir þessar þrjár greinar og byrja á 18. gr. þar sem fjallað er um inntökuskilyrði. Ég hafði áhyggjur af því í upphafi þessa máls og þegar frumvarpið var lagt fram að greinin væri of opin hvað varðaði almennar takmarkanir og inntökuskilyrði í háskólana vegna þess að ég tel alla slíka ákvarðanatöku þurfa að byggja á forsendum, skilyrðum og kvöðum skólanna og deildanna til þess að geta tekið á móti þeim fjölda sem sækir um. En það á ekki að vera opið og ekki að geta boðið þeirri hættu heim að þetta sé notað við aðrar aðstæður en þær.

Ég fagna því að við vinnslu málsins í nefndinni komst nefndin að þeirri niðurstöðu að það væri betra að skerpa á þeirri grein. Ég tel þá breytingartillögu sem hér er gerð koma í veg fyrir að slíkt geti gerst, hún skerpir hana og skýrir.

Í öðru lagi gerði ég upphaflega líka miklar athugasemdir við 24. gr. Það sem ég gerði athugasemdir við þar var sú setning sem í frumvarpinu er um að háskólaráð geti gert tillögu til ráðherra um breytingar á hámarksfjárhæð skrásetningargjalda og þessi setning hefur núna farið út í breytingartillögum okkar í meiri hlutanum og því ber að fagna.

Virðulegi forseti. Ég var líka með ákveðna fyrirvara vegna þess að ég hafði áhyggjur af því hvert við værum að stefna hvað þjónustugjöld varðar og mætti þar sérstaklega nefna b-lið 24. gr. en þar er fjallað um gjöld til að standa undir útgáfu staðfestra vottorða, gerð, fyrirlögn og yfirferð stöðu-, inntöku-, upptöku- og fjarprófa. Eftir að nefndin hafði fjallað um þetta mál er það alveg skýrt að það er ásættanlegt hvernig umrædd gjöld eru notuð í skólunum í dag. Til dæmis er fjarprófaheimildin í Háskóla Íslands notuð þannig að þegar einhver tekur próf utan háskólans, jafnvel erlendis, eru tekin fyrir það gjöld frá 3.000 kr. upp í 8.000 kr. og það er ekki mikið við það að athuga og telst að mínu mati mjög hóflegt.

Ég hafði einna mestar áhyggjur af þessu orði „upptökugjöld“ og þá ekki síst í ljósi greinargerðar sem fylgir frumvarpinu þar sem fjallað er um að þau rök sem búa að baki byggist á því að rétt sé að virkja kostnaðarvitund, einkum nemenda og starfsmanna háskólanna, og gjaldtakan eigi að vera stjórntæki til að stýra eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem um er að ræða hverju sinni.

Þetta olli mér áhyggjum, virðulegi forseti. En eftir að hafa farið yfir málið þá hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að þar sem gjaldtaka fyrir upptökupróf er notuð í Háskólanum á Akureyri er það gert með þeim mildilega hætti að slíkri gjaldtöku er eingöngu beitt þegar nemandinn tekur upptökupróf í sama fagi í annað sinn. Það tel ég vera ásættanlegt.

Niðurstaða nefndarinnar og nefndarálitið sem meiri hlutinn skilar frá sér tekur að mínu mati af allan vafa um að hér sé með einhverjum hætti verið að á auka á þjónustugjöld, skólagjöld eða gjaldtöku í háskólunum og um það er kveðið mjög skýrt að orði í nefndaráliti meiri hlutans. Og af því að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson nefndi áðan umræðuna um skólagjöld sem var við 1. umr. þessa máls þá held ég að hún hafi að ákveðnu leyti verið til góðs því þarna var tekin snörp umræða og niðurstaðan er alveg skýr í nefndaráliti meiri hlutans. Þessu frumvarpi er ekki ætlað að vera einhvers konar upphaf á upptöku skólagjalda í Háskóla Íslands. Þannig er meira að segja kveðið mjög sterkt að orði í nefndaráliti meiri hlutans þar sem sagt er að meiri hlutinn telji að með lögfestingu 24. gr. frumvarpsins sé alls ekki verið að heimila töku skólagjalda við opinbera háskóla. Sömuleiðis segir meiri hlutinn hér og í því sambandi má horfa á b-lið 24. gr., að meiri hlutinn undirstriki þann skilning sinn að ekki sé um nýjar eða auknar gjaldtökuheimildir að ræða í frumvarpinu. Þá áréttar meiri hlutinn sérstaklega að hækkun skráningargjalda við opinbera háskóla verður ekki ákveðin nema með samþykki Alþingis, umfram það hámark sem tilgreint er í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Þetta tel ég að sé mjög skýrt og ég fagna breytingartillögunni sem við í meiri hlutanum gerðum við 24. gr. og ég er mjög ánægð með þá niðurstöðu sem við náðum í því sambandi. Sömuleiðis tel ég að nefndarálitið sem meiri hlutinn leggur hér fram vegi svo sannarlega upp þessa setningu sem mér þótti afar afkáraleg í greinargerðinni með frumvarpinu því að eftir þá umræðu sem við tókum um skólagjöld og gjaldtöku í háskólunum þá er þetta afdráttarlaus niðurstaða meiri hluta nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Að lokum ætla ég að fjalla um það atriði sem ég geri fyrirvara við í nefndaráliti meiri hlutans. Ég er afar sátt við þær breytingar og sjónarmið sem ég og fleiri höfum talað fyrir í þessum efnum, þeim hefur verið vel mætt eins og ég hef nefnt varðandi 18. gr. og 24. gr. og nánast að öllu leyti. En varðandi breytinguna sem verið er að gera við 6. gr. þá gerði ég mjög alvarlegar athugasemdir við að, eins og frumvarpið stendur nú, þar væri verið að kollvarpa lýðræðislegum hefðum námsmannahreyfinganna innan Háskóla Íslands. Þar hafa tekist á tvær fylkingar og þetta hefur sett verulegt strik í reikninginn auk þess sem skólinn er að stækka og ég tel að rödd nemenda í háskólaráði eigi eigi að vera mjög sterk og skýr.

Ég fagna því mjög þeirri breytingu sem við í meiri hlutanum höfum gert um að það verði tveir fulltrúar nemenda í háskólaráði. Engu að síður, og það er sá fyrirvari sem ég set, þá hef ég allan þann tíma sem þetta mál hefur verið í umfjöllun nefndar verið andvíg því að við gerðum þær breytingar á háskólaráði að þar yrði meiri hluti utanaðkomandi. Ég er það enn en engu að síður lít ég svo á að sú breyting sem er þó gerð hér sé mun til bóta miðað við það sem áður var. Núna er kominn sterkur kjarni úr akademíunni, það er ekki lengur stakur nemandi, stakur fulltrúi kennara og stakur rektor heldur eru nú komnir tveir frá nemendum og tveir frá kennurum. Þetta myndar þó sterkan kjarna í hinu nýja háskólaráði frá akademíunni sjálfri og ég álít það til mikilla bóta.

Ég er hins vegar ekki endilega sammála því að háskólaráð eigi að vera alfa og omega í því að efla tengslin við atvinnulífið heldur eru það auðvitað sviðin, deildirnar og fræðasviðin sem munu gera það og hafa gert það, þær deildir sem eru núna í háskólanum.

En ég vil, virðulegi forseti, ekki heldur ganga jafnlangt og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði í ræðu sinni þar sem mér fannst hún gefa sér að hinir utanaðkomandi aðilar geri ekki gagn eða hafi vond áhrif á háskólastarfið. Ég held að svo sé alls ekki. Ég held að við höfum góða reynslu af því innan háskólans að vera með utanaðkomandi fulltrúa en þó hefur það verið mín skoðun að við ættum að virða hefðirnar sem skapast hafa innan Háskóla Íslands hvað varðar jafningjastjórnun.

Ég mun núna, og flestir í Samfylkingunni eru mér sammála í því efni, fylgjast verulega vel með því hvernig þessi framkvæmd verður á næsta ári og árum. Ég sætti mig við þá tilraun sem hér er verið að gera í ljósi þeirra breytinga sem gerðar hafa verið vegna þess að ég tel þær verulega til bóta. En ég vil líka leggja áherslu á að ég álít gríðarlega mikilvægt að þegar farið verður að skoða hvernig þeir fjórir fulltrúar sem menntamálaráðherra hefur valið þá verði hugsað til samtaka eins og t.d. Hollvinasamtaka háskólans og að slík samtök geti jafnvel tilnefnt fulltrúa inn í þetta ráð og að haft verði samráð við þá við val á fulltrúum menntamálaráðherra þangað inn, vegna þess að auðvitað má þetta ekki vera þannig, og ég veit að það er ekki ætlunin, að þarna eigi að skipa eingöngu pólitíska fulltrúa.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu þá fagna ég þeim breytingum sem gerðar eru á frumvarpinu. Ég set þó fyrirvara vegna þess að ég hefði viljað sjá gengið lengra í breytingartillögum hvað háskólaráðið varðar. En ég mun þó engu að síður styðja þá breytingu sem gerð er vegna þess að ég tel hana vera verulega til bóta þar sem hún tryggir að lýðræðishefðir stúdentahreyfingarinnar séu virtar. Sömuleiðis er þar búinn til sterkari kjarni sem hefur sterkara samband við háskólafund innan háskólans. Ég hef nú lýst fyrirvörum mínum við frumvarpið og eins og ég sagði mun ég fylgjast verulega vel með því hvernig framkvæmdin á þessu verður.