135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:26]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta andsvar kórónaði það sem ég var að segja hér áðan. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa gengið hér upp í hverju einasta máli, djöflast í okkur í Samfylkingunni og haldið því fram að við séum að leggja niður einhverjar varnir. Hv. þingmaður veit það vel að þau mál sem hér hafa verið að fara í gegn eru stór grundvallarmál sem samrýmast algjörlega stefnu okkar í Samfylkingunni.

Hv. þingmaður hélt því fram að við værum að fara gegn stefnu Samfylkingarinnar hvað varðar breytingarnar á háskólaráði. Það er rangt vegna þess að hvergi er kveðið á um það í okkar stefnuskrá hvernig innri málum háskólans eigi að vera háttað. Hins vegar er skýrt kveðið á um það í stefnu okkar að ekki eigi að taka upp skólagjöld í opinberum háskólum. Sú stefna endurspeglast mjög vel í frumvarpinu sem hér er verið að fjalla um (Gripið fram í.) og ekki síst í nefndarálitinu.

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður eigi eftir að sjá eins og við hin þennan glæsilega háskóla, Háskóla Íslands, vaxa og dafna, hann á eftir að gera það. Ég get sannfært hv. þingmann um að það er enginn sem situr aðgerðalaus í þessari umræðu hvað samkeppnisstöðuna varðar og í nefndarálitinu er sérstaklega fjallað um það. Hvatt er til þess að þessi umræða haldi áfram, það er gert í nefndaráliti, enginn er með lokuð augun fyrir þeirri umræðu. Það má heldur ekki gleyma því að síðan segja einkaskólarnir að Háskóli Íslands fái miklu meira rannsóknarfjármagn en þeir. Hún gengur á báða bóga þessi umræða um samkeppnisstöðuna og við þurfum að skoða hana frá öllum hliðum.

Ég vil í lokin, af því að ég á þrjár sekúndur eftir, óska Háskóla Íslands innilega til hamingju með að með frumvarpinu er verið að reka smiðshöggið á sameiningu Kennaraháskólans (Forseti hringir.) og Háskóla Íslands. Því ber að fagna og það er aðalatriði þessa máls, virðulegi forseti.