135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:55]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta andsvar hv. þingmanns lýsir því auðvitað að það hefði verið ákjósanlegt, þó svo að tekinn hafi verið góður tími í að vinna málið í nefndinni, að hafa lengri tíma í það eftir 2. umr. (Gripið fram í.) Það skiptir verulegu máli að við ræðum hér í 3. umr. stór mál, kannski stærstu málin á þinginu eða a.m.k. í flokki þeirra stærstu, á afar skömmum tíma og það er ekki afsakanlegt. Það er bara verulega fúlt, hæstv. forseti, að maður skuli þurfa að láta sig hafa það.

Í fyrra andsvari mínu kom ég ekki að viðbrögðum við því sem hv. þingmaður sagði um mannréttindamálin. Ég er á því að hv. þm. Guðni Ágústsson hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann í frammíkalli fyrir nokkrum dögum síðan sagði stundarhátt þegar verið var að greiða atkvæði um sambærilega tillögu að stjórnarliðar gætu ekki samþykkt hana af því hún væri komin frá vondu fólki. Ég tel að það sé bara mergurinn málsins. Það er ekkert flókið við það að setja mannréttindi og virðingu fyrir mannréttindum inn í bæði frumvörpin. Ef það væri vilji til þess í alvöru hjá stjórnarliðum að horfa bara á málefnið ætti þetta að vera fullkomlega útlátalaust, en það sem þvælist fyrir þessum hv. þingmönnum er greinilega það að tillagan kemur frá vondu fólki.