135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[19:03]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Í 13. gr. frumvarps um framhaldsskóla segir að á framhaldsskólastigi skuli veita nemendum með fötlun samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Síðan segir í frumvarpinu:

„Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntamálaráðuneytisins.“

Eins og sjá má á þingskjali 1246 þá liggur fyrir breytingartillaga sem ég flyt þar sem ég legg til að orðin „að mati menntamálaráðuneytisins“ í 2. málslið 1. mgr. falli brott og greinin kveði þá á um að látin skuli í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Ég vonast til þess að hv. þingmenn styðji þessa breytingartillögu.