135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[19:31]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nefndin fékk gesti á sinn fund til að fjalla um þetta mál og fékk auk þess nokkrar umsagnir um það. Það er niðurstaða nefndarinnar að málið eigi að samþykkja með einni breytingu. Í frumvarpinu er iðnaðarráðherra veitt heimild til að fela Orkustofnun að annast leyfisveitingar til rannsóknar og nýtingar á grundvelli tveggja lagabálka sem varða annars vegar auðlindir í jörðu og hins vegar auðlindir hafsbotnsins.

Á fundum nefndarinnar kom fram að frumvarpinu væri ætlað að gera ferli við leyfisveitingar skilvirkara með því að fela sérhæfðri stofnun, Orkustofnun, útgáfu leyfanna. Að öðru leyti væri ekki við því að búast að frumvarpið hefði áhrif á almennt verklag við undirbúning leyfisveitinga.

Meiri hlutinn leggur til þá breytingartillögu að frestur til að kæra ákvarðanir Orkustofnunar verði rýmkaður úr því að vera 30 dagar til samræmis við almenn stjórnsýslulög sem kveða á um 90 daga.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu en undir þetta rita sú er hér stendur ásamt hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, Einari Má Sigurðarsyni, Herdísi Þórðardóttur, Guðna Ágústssyni, Björk Guðjónsdóttur og Grétari Mar Jónssyni.