135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

almannavarnir.

190. mál
[19:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um almannavarnir frá meiri hluta allsherjarnefndar.

Það er óneitanlega sérstakt að við skulum ræða þetta mál nú þegar litið er til þeirra atburða sem áttu sér stað í dag, jarðskjálftanna á Suðurlandi, en ég held að þeir atburðir undirstriki að hér er um afar mikilvægan málaflokk að ræða og mikilvægt að vel sé að honum búið þó að auðvitað geti menn haft mismunandi skoðanir á útfærsluatriðum í því sambandi.

Allsherjarnefnd hefur fjallað ítarlega um þetta mál á mörgum fundum sínum og fengið til sín fjölmarga gesti og fengið allmargar skriflegar umsagnir. Í nefndaráliti er þess getið hver aðdragandi laganna er og kemur fram að frumvarpið er samið í kjölfar stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá því í september 2006 um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins. Þar var undirstrikuð ákveðin stefnumörkun sem m.a. er hrint í framkvæmd með því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Í nefndarálitinu er gerð grein fyrir mörgum meginþáttum frumvarpsins og mun ég ekki fara sérstaklega yfir þá heldur vísa til nefndarálitsins. Ég vil fyrst og fremst nota ræðutíma minn hér til að gera grein fyrir breytingartillögum sem meiri hluti allsherjarnefndar hefur lagt fram og finna má á sérstöku þingskjali og rétt að geta þess að breytingartillögur þessar eru gerðar í allgóðri sátt aðila og m.a. eftir ábendingar sem komu fram hjá umsagnaraðilum eins og gengur í meðförum mála af þessu tagi.

Ef vikið er að einstökum breytingartillögum þá er fjallað um markmiðssetningu frumvarpsins í 2. mgr. 1. gr. þess. Þar er í fyrsta lagi lagt til að upptalning á þeim atriðum sem almannavarnaviðbrögð eiga vernda samræmist betur 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Markmiðssetningin verður því útvíkkuð að þessu leyti þannig að vísað verði til líkams- og heilsutjóns almennings, umhverfis eða eigna. Í öðru lagi er lagt til að hugtakið hryðjuverk falli brott úr upptalningu á þeim tilfellum sem geta leitt til almannavarnaviðbragða enda er í greininni vísað til hættuástands af mannavöldum sem tekur einnig til hættu af hryðjuverkum. Í þriðja lagi er lagt til að orðin „enda falli þau störf ekki undir aðra samkvæmt lögum“ falli brott enda er markmið frumvarpsins að setja heildarramma um almannavarnastörf og vísan til annarra laga í þessu sambandi því óþörf.

Lagðar eru til tæknilegar breytingar til að færa heiti ráðherra og ráðuneyta til samræmis við lög um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og lagt til að forstjóri Geislavarna ríkisins eigi sæti í almannavarna- og öryggismálaráði.

Lagt er til að 5. gr. frumvarpsins breytist á þann veg að við 1. mgr. þar bætist að dómsmálaráðherra skuli hafa samráð við almannavarna- og öryggismálaráð þegar hann gefur út reglur um almannavarnastig. Jafnframt er lögð til breyting á 2. mgr. 5. gr. sem felur í sér að þegar ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um almannavarnastig hafi hann samráð við lögreglustjóra ef unnt er. Með þessari breytingu er undirstrikað að tengsl við aðgerðastjórn í héraði verði tryggð eins og unnt er.

Lagðar eru til þrenns konar breytingar á 7. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi breytingar sem vísa til eftirlits ríkislögreglustjóra. Síðan er fjallað um að óþarft sé að tekið sé sérstaklega fram að meðal þeirra verkefna sem ríkislögreglustjóri þurfi að huga að sé gerð varnarvirkja og annarra verndarráðstafana en ljóst er að gerð slíkra varnarvirkja getur verið á hendi ýmissa aðila samkvæmt lögum. Þá er í öðru lagi lagt til að í stað þess að kveða á um að ríkislögreglustjóri hafi umsjón með gerð hættumats, sbr. 2. málsl. 2. mgr., verði mælt fyrir um að hann hafi eftirlit með gerð hættumats, þannig að verkefnið að gera hættumat verður þá á verksviði annarra en ríkislögreglustjóri fylgist með því að það sé gert. Í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting á 5. málsl. 2. mgr. 7. gr. í þeim tilgangi að hnykkja á því að ríkislögreglustjóri hafi eftirlit með stjórn aðgerða en í umfjöllun nefndarinnar kom fram að við við lestur þessa ákvæðis í frumvarpinu væri hægt að draga þá ályktun að ríkislögreglustjóri hefði stjórn aðgerða með höndum.

Lagðar eru til þrenns konar breytingar á 9. gr. frumvarpsins. Er í fyrsta lagi lagt til að breytt verði orðalagi í 1. mgr. svo skýrt sé að það sé sveitarstjórn sem ákveður fjölda nefndarmanna í almannavarnanefnd. Í öðru lagi er lagt til að við 3. mgr. bætist heimild fyrir sveitarstjórnir til að semja um gagnkvæma aðstoð sín á milli. Í þriðja lagi er lagt til að við 3. mgr. bætist ákvæði þess efnis að þegar ein almannavarnanefnd er í umdæmi lögreglustjóra skuli hann eiga sæti í nefndinni. Er það gert til að tryggja að lögreglustjóri sem fer með stjórn aðgerða í héraði eigi sæti í sameinaðri almannavarnanefnd.

Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 11. gr. frumvarpsins. Er annars vegar lögð til sú orðalagsbreyting á 1. mgr. að það verði skýrt að ábyrgð á stjórn aðgerða í héraði sé á hendi lögreglustjóra en hann starfi samt sem áður náið með öðrum viðbragðsaðilum og er Rauði kross Íslands nefndur til viðbótar sem viðbragðsaðili sem eigi sæti í aðgerðastjórn. Hins vegar er lagt til að í 2. mgr. komi hugtakið „stjórn“ í stað hugtaksins „heildarstjórn“. Þykir síðarnefnda hugtakið síður henta í því sambandi, einkum varðandi skilgreiningu þess í reglugerð um leit og björgun á landi og samstarf lögreglu og björgunarsveita. Telja verður að hugtakið heildarstjórnun eigi ekki heima á vettvangi enda er vettvangsstjórnun í eðli sínu framkvæmd áætlana innan tiltekins vettvangs.

Þá er lagt til að þrenns konar breytingar verði gerðar á 12. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi að hnykkt verði á því í síðari málslið 1. mgr. að samhæfing aðgerða geti einnig farið fram þótt almannavarnaástandi hafi ekki verið lýst yfir. Í öðru lagi er lögð til orðalagsbreyting á 1. málsl. 2. mgr. til að hnykkja á því að ákvæðið eigi við þegar almannavarnaástand ríkir. Í þriðja lagi er lagt til að í stjórn samhæfingar- og stjórnstöðvar eigi sæti ellefu fulltrúar í stað níu og bætist við einn fulltrúi frá Flugstoðum og einn frá Rauða krossi Íslands.

Lögð er til sú breyting á 2. mgr. 13. gr. að ríkislögreglustjóri skuli kanna afstöðu hlutaðeigandi lögreglustjóra áður en hann tekur ákvörðun um að samhæfingar- og stjórnstöð taki við stjórn aðgerða.

Í 14. gr. er lagt til að 2. mgr. verði breytt þannig að þjónustumiðstöð skuli hafa samvinnu við viðkomandi almannavarnanefndir þegar hún hefur samskipti við fjölmiðla.

Lögð er til orðalagsbreyting á 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. frumvarpsins. Jafnframt er því bætt við að viðbragðsáætlanir séu gerðar til samræmis við þau lög sem um starfssviðið gilda. Er það til að árétta að til grundvallar viðbrögðum við almannavörnum liggi sviðsábyrgðar-, grenndar-, samkvæmnis- og samræmingarreglurnar sem frumvarpið grundvallast á.

Í 16. gr. frumvarpsins eru lagðar til tvenns konar breytingar. Er annars vegar lagt til að bæði sveitarfélög og stofnanir á þeirra vegum skuli kanna áfallaþol í umdæmi sínu. Samræmist þetta 1. mgr. 15. gr. frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um skyldu ráðuneyta og undirstofnana til að kanna áfallaþol þess hluta íslensks samfélags sem undir þau heyrir. Hins vegar er lagt til að í stað þess að kveðið sé á um í 16. gr. að sveitarfélög geri viðbragðsáætlanir, þá sé tekið fram til samræmis við 10. gr. frumvarpsins að það verkefni sé á hendi almannavarnanefnda sveitarfélaganna.

Lögð er til sú breyting á 17. gr. frumvarpsins að viðbragðsáætlanir skuli staðfestar áður en þær eru sendar ríkislögreglustjóra.

Í 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins er tilvísun breytt.

Í 20. gr. frumvarpsins er lögð til breyting. Þar kemur fram að ákvörðun um kvaðningu manns til starfa við almannavarnir verði ekki skotið til æðra stjórnvalds. Lagt er til að í stað orðsins „starfa“ komi „tafarlausrar aðstoðar“ til að undirstrika að þarna er ekki um almenn störf að ræða heldur aðstoð sem ekki má bíða eða verða fyrir neinum töfum.

Lögð er til breyting á 21. gr. frumvarpsins til samræmingar við aðrar greinar.

Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins að lögreglustjóri í stað ríkislögreglustjóra hafi heimild til að gefa almenn fyrirmæli á hættustundu til samræmis við lögreglulög. Er það í samræmi við það sem áður hefur verið nefnt að stjórn aðgerða í héraði sé á hendi lögreglustjóra.

Lögð er til sú breyting á 2. mgr. 29. gr. frumvarpsins að skýrsla rannsóknarnefndar skuli kynnt hlutaðeigandi almannavarnanefndum og sveitarstjórnum áður en hún verður birt. Er það til að tryggja að þessum aðilum, almannavarnanefndum og sveitarstjórnum, gefist kostur á að meta skýrslurnar áður en þær koma fram opinberlega.

Varðandi refsiákvæðið í 33. gr. frumvarpsins er gerð breyting til skýringar. Þar er vísað sérstaklega til þeirra ákvæða laganna sem því er ætlað að ná til. Lagt er til að í refsiákvæðinu verði aðeins mælt fyrir um að sá sem gefi ranga tilkynningu til samhæfingar- og stjórnstöðvar eða misnoti þjónustu þeirra varðandi almannavarnir hvort sem er af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi skuli sæta refsingu samkvæmt viðeigandi lagaákvæðum. Hins vegar getur tiltekin hegðun fallið undir ákvæði annarra laga. Má þar nefna, eins og gert er í nefndarálitinu, að í 127. gr. almennra hegningarlaga er t.d. kveðið á um að sektir eða fangelsi allt að þremur mánuðum geti legið við því að að sinna ekki kvaðningu yfirvalds um aðstoð til að koma í veg fyrir ófarnað sem lífi, heilbrigði eða velferð manna er búin hætta af.

Enn fremur eru lagðar til fleiri breytingar sem varða tilvísanir og lagatækni.

Loks er lagt til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að reglur um almannavarnastig skuli settar eigi síðar en í árslok 2009. Gert er ráð fyrir því að fram að þeim tíma gildi reglur sem dómsmálaráðherra setur eftir tillögum ríkislögreglustjóra. Nauðsynlegt þykir að í gildi séu reglur um almannavarnastig en nokkurn tíma getur tekið fyrir almannavarna- og öryggismálaráð að taka ákvörðun um efni þeirra.

Meiri hluti allsherjarnefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert hér grein fyrir og er að finna í sérstöku þingskjali.

Siv Friðleifsdóttir skrifaði undir álitið með fyrirvara.

Sigurður Kári Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur Ágúst Ólafur Ágústsson, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir, með fyrirvara, Herdís Þórðardóttir, Karl V. Matthíasson og Kjartan Eggertsson.