135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[20:29]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér kemur til atkvæðagreiðslu frumvarp til laga um opinbera háskóla eftir 2. umr. sem var í skötulíki. Málið var tekið á dagskrá Alþingis með afbrigðum. Það hefur fengið allt of stuttan tíma í umræðum á Alþingi, sérstaklega í ljósi þess hversu viðamiklar breytingar er verið að gera á opinberu háskólunum. Það er verið að fara gegn þeirri hefð sem hefur tíðkast í Háskóla Íslands og öðrum opinberum háskólum sem lýtur að jafningjastjórnun. Hér er verið að opna háskólaráðið fyrir utanaðkomandi aðilum, kannski þeim aðilum sem líta á háskóla og háskólastofnanir sem menntafyrirtæki og þetta hefur ófyrirséðar afleiðingar. Einnig er látið undir höfuð leggjast að greiða úr álitamálinu um samkeppnishæfni háskólanna og þann mun sem er á svokallaðri samkeppnishæfni opinberu háskólanna og einkaháskólanna.

Ég tel mjög varhugavert að greiða ákveðnum greinum atkvæði. Þess vegna höfum við lagt fram góðar breytingartillögur, við hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sem ég treysti á að þingið styðji.