135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[20:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Meiri hluti menntamálanefndar gerir breytingartillögu við hina óásættanlegu tillögu sem í frumvarpinu er varðandi skipan háskólaráðs. Það er fjölgað í ráðinu samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans en hins vegar er valdahlutföllunum ekkert breytt frá tillögu frumvarpsins. Þeir fjórir fulltrúar sem gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hlutans að verði skipaðir af menntamálaráðherra gera það að verkum að valdahlutföllin eru ekki háskólanum í hag heldur ríkjandi stjórnendum.

Nú vil ég leggja það til að þingheimur átti sig á þeirri tillögu sem við berum hér upp til atkvæða en það er tillaga um að jafningjastjórnun í háskólaráði verði viðhöfð hér eftir sem hingað til og að það verði tryggt að hið akademíska samfélag hafi ævinlega sterkust ítök í háskólaráðinu. Þess vegna segi ég já við þessari breytingartillögu, hæstv. forseti.