135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

almannavarnir.

190. mál
[21:22]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum atkvæði um heildarendurskoðun á almannavörnum á Íslandi. Það er alveg ljóst að miðað við frumvarpið er verið að styrkja stjórn og samræmingu almannavarna. Verulega hefur verið komið til móts við þau sjónarmið sem fram komu í nefndinni, þær athugasemdir sem voru gerðar.

Það er að mínu mati mjög mikilvægt að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lýst því yfir að breytingarnar sem við höfum gert á frumvarpinu tryggi að samvinna ríkis og sveitarfélaga á sviði almannavarna geti gengið hnökralaust fyrir sig.

Þrátt fyrir að samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu séu ekki að fullu sátt við frumvarpið tel ég að það sé til bóta og legg til að við samþykkjum þær breytingartillögur sem meiri hlutinn gerir. Ég tel að almannavörnum verði betur fyrir komið eftir samþykkt þess en ella hefði verið.