135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[22:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið veitir Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þingflokkur okkar, þessu máli brautargengi. En við gerum það með mjög stífum skilyrðum sem fram komu í ræðu sem hv. þm. Jón Bjarnason flutti hér í dag og ítrekaði fyrirvara okkar við 2. umr. málsins. Þeir lúta að því að á komandi þingi verði gerður uppskurður á fjármálakerfi landsins m.a. með það fyrir augum að greina rækilega á milli með ákveðnum skorðum viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingarsjóða hins vegar.

Við höfum flutt frumvarp þessa efnis í þinginu áður og munum gera það en væntum þess að ríkisstjórnin beiti sér fyrir slíkum lagabreytingum. Þetta er einn þeirra fyrirvara sem við setjum við samþykkt þessa frumvarps en ég vísa að öðru leyti í greinargerð hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem hann flutti fyrir okkar hönd.