135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

lyfjalög.

464. mál
[22:45]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins bæta við einu atriði úr áliti okkar, minni hluta í heilbrigðisnefnd, sem varðar nákvæmlega það atriði sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vék að í ræðu sinni. Það er ákvæði 10. gr. frumvarpsins, um lyfjaverðið. Við vitum að íslenskur lyfjamarkaður er fákeppnismarkaður og fákeppnin bitnar harkalega á þeim sem síst skyldi, það er sjúklingum sem hafa lítið val um það hvaða lyf þeir kaupa eða hvort þeir yfir höfuð verða að kaupa lyf.

Við teljum miður að stjórnvöld skuli ekki telja aðra leið færari til að lækka lyfjaverð á þessu stigi en að banna alla afslætti sem sjúklingar fá nú yfir borðið í apótekum. Einkum er þetta bagalegt fyrir örorku- og ellilífeyrisþega og þá hópa sjúklinga sem eru háðir tilteknum lyfjum ævilangt og hafa jafnvel fyrir atbeina hagsmunasamtaka sinna náð fram afsláttum í lyfjabúðum á tilteknum lyfjum.

Við teljum víst að mörgum muni bregða í brún þegar lyfjaverð sem þeir kaupa yfir borðið hækkar 1. október næstkomandi við gildistöku laganna. Í lok nefndarálits okkar kemur fram að við hefðum talið eðlilegt að hugmyndinni um breytingu á 10. gr. lyfjalaganna yrði vísað til frekari skoðunar í nefnd þeirri sem kennd er við hv. þm. Pétur H. Blöndal og hefur nú hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði til athugunar.