135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.

622. mál
[22:47]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2008 sem gengið var frá með bréfaskriftum í Þórshöfn og Reykjavík 3. og 9. apríl síðastliðinn.

Samningur þessi kveður á um allar heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á þessu ári. Færeysk skip fá heimild til að veiða 30 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu á loðnuvertíðinni 2008/2009 svo fremi að leyfilegur heildarafli verði a.m.k. 500 þús. lestir. Verði leyfilegur heildarafli minni nemur hlutdeild færeyskra skipa 5% af honum. Þá fá Færeyingar takmarkaða heimild til að vinna loðnu um borð og landa henni til manneldis erlendis. Færeyskum skipum er heimilt á loðnuvertíðinni 2008/2009 að veiða allt að 10 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu úr veiðiheimildum sem fengnar eru með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda.

Samningurinn gerir einnig ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á þessu ári. Íslenskum skipum eru heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld, annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á þessu ári. Loks er í samningnum kveðið á um að hvor aðili skuli veita tveimur skipum, sem skráð eru í landi hins aðilans leyfi til tilraunaveiða á túnfiski innan lögsögu sinnar á þessu ári.

Samningur þessi tók gildi til bráðabirgða 9. apríl síðastliðinn.

Áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976, um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands, ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2008.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.