135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

útlendingar.

337. mál
[23:23]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir síðustu orð hv. formanns allsherjarnefndar um að frumvarpið er til bóta og það hefur tekið ánægjulegum breytingum í meðförum allsherjarnefndar. Ég get líka tekið undir það að samstarf okkar í nefndinni hefur verið gott um þetta mál. Engu að síður fannst mér það ganga of skammt og legg til fleiri breytingar sem eru í samræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í innflytjendamálum. Ég vísa aðallega í nefndarálit okkar en vil tæpa hér á helstu breytingum sem við leggjum til og skýra þær að nokkru leyti.

Við leggjum fyrst til breytingu við 4. gr. frumvarpsins en þar segir m.a.:

„Heimilt er að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu“ ef „hann telst ekki ógn við allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðasamskipti ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.“ Við höfum lagt til að skilgreint verði nákvæmlega hvað felst í þessari reglu og tiltekið verði hvaða aðili hafi ákvörðunarvald í slíkum tilvikum. Meðan það hefur ekki verið skilgreint leggjum við til að þetta ákvæði falli brott. Ég verð að benda á það líka að flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemd við það að skilgreiningin sé óskýr að þessu leyti. Einnig verður minni hlutinn að taka undir álit Rauða kross Íslands um að sá sem reyndi, samkvæmt þessu frumvarpi, að sækja um hæli á Íslandi sem flóttamaður „þyrfti annaðhvort að segja ósatt um tilgang ferðar sinnar eða leita annarra leiða til að komast til landsins til að sækja um hæli sem flóttamaður“.

Í 6. gr. er nýmæli sem ég get ekki fallist á óbreytt en þar segir að innflytjendur skuli „gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda“. Hér eru engar skilgreiningar. Frumvarpið skýrir hvorki hvaða sjúkdóma eigi að koma í veg fyrir að berist til landsins né hver eigi að hafa ákvörðunarvald til að neita fólki um dvalarleyfi á þessum forsendum. Við höfum lagt fram tillögu sem takmarkar þessa heimild og bætum við að ástæða þurfi að vera til að ætla að viðkomandi beri með sér smitsjúkdóma.

Það er eins með 7. gr. en þar er kveðið á um að dómsmálaráðherra sé „heimilt að ákveða að dvalarleyfisskírteini skuli innihalda örflögu með þeim upplýsingum sem skráðar eru á kortið auk fingrafara handhafa“. Ekkert segir um hvaða upplýsingar eigi að skrá, hvort takmarkanir séu á slíkri skráningu eða hver hafi leyfi til að skoða þær. Við leggjum til að ákvæðið falli brott.

Sama á við um 8. gr. Þar er talað um að grunnskilyrði dvalarleyfis sé að fólk hafi „nægilegt eigið fé til framfærslu meðan á dvölinni stendur“. Þetta telur minni hlutinn vera óskýrt orðalag og bendir sérstaklega á umsagnir Alþjóðahúss, Stúdentaráðs HÍ, Mannréttindaskrifstofuna og Rauða krossinn en þessir aðilar hafa gert tillögu um að atvinnuleysisbætur eða greiðsla í formi félagslegrar aðstoðar ríkis sé meðtalin við útreikning á því hvað teljist nægilegt fé og við gerum breytingartillögu í þá veru.

Við tökum líka undir athugasemd sem borist hefur frá flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um að ákvæði 2. mgr. 11. gr. sé of þröngt. Ákvæðið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru maki, sambúðarmaki og samvistarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maka í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.“

Við í minni hlutanum leggjum til að orðin „eldri en 66 ára“ verði felld niður. Í því sambandi minni ég á að í almennu mannréttindayfirlýsingunni frá 1948 og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 er tekið fram að fjölskyldan sé hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins og eigi rétt á vernd þjóðfélagsins og ríkisins, samanber einnig athugasemd flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.

Minni hlutinn leggur einnig til að hugtakið rökstuddur grunur, skv. 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins, um málamyndahjónaband eða samvist verði betur skilgreint og að ákvæðið „ef annar makinn er 24 ára eða yngri skal ávallt kanna hvort málsatvik séu með þeim hætti sem um getur í 1. og 2. málsl.“ falli brott. Mannréttindaskrifstofa, prestur innflytjenda og fleiri segja að aldursmark við 24 ár í þessu tilviki sé algjörlega órökstutt. Engin rök séu fyrir slíkri reglu auk þess sem nú þegar sé kveðið á um í lögum að ef rökstuddur grunur er um að stofnað hafi verið til málamyndahjúskapar til að afla dvalarleyfis teljist dvalarleyfið vera ógilt. Ég átta mig ekki á því af hverju miðað er við þessa 24 ára reglu, sem er þó fallin út að hluta, og hún skuli enn birtast þarna eins og hver annar draugur. Reglan er óþörf gagnvart þeim sem hún beinist að og óréttlát. Við leggjum til, ég og hv. þm. Paul Nikolov, sem er með mér á þessum breytingartillögum, að ákvæðið falli út.

Ég verð líka að fagna sérstaklega breytingum sem hafa verið gerðar á frumvarpinu og þeirri miklu réttarbót sem fólgin er í breytingum á 5. mgr. 11. gr. um að ungmenni sem koma hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir 18 ára aldur þurfi ekki lengur að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, heldur nægi þeim að sýna fram á framfærslu með aðstoð foreldris. Einnig öðrum ákvæðum í breytingartillögunum um framfærslu. Sérstaklega gleður mig að sjá að inn í frumvarpið er komin heimild um að heimila maka sem hefur lent í ofbeldissambandi dvalarleyfi hér áfram. Þessi ákvæði voru ekki í frumvarpi sem kom frá dómsmálaráðuneytinu en bættust inn í meðförum allsherjarnefndar til marks um gott samstarf í nefndinni. Þetta hafa verið baráttumál þess sem hér stendur um árabil og ég hef lagt ítrekað fram frumvörp í þessa veru og nú síðast lagði Paul Nikolov fram frumvarp ásamt fleiri þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þessum vetri.

Við tökum líka undir athugasemd flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna að það verði að skilgreina betur hvað felist í hugtakinu rík mannúðarsjónarmið. Við leggjum enn fremur til að flóttamönnum sé heimilt að vinna hér meðan verið er að skoða hagi þeirra og aðstæður og þeim verði veitt bráðabirgðaatvinnuleyfi meðan svo er statt um þá.

Við teljum að fjögurra ára búsetuskilyrðin séu allt of ströng og leggjum til að í stað orðanna „síðustu fjögur árin“ í 13. gr. haldist ákvæðið „síðustu þrjú árin“ áfram í lögum. Minni hlutinn telur líka að í e-lið þessarar greinar verði að skilgreina betur, t.d. hvers konar málum megi ekki vera ólokið í refsivörslukerfinu sem koma í veg fyrir veitingu búsetuleyfa.

Minni hlutinn leggur til að orðin „EES eða EFTA“ falli brott í 24. gr.

Minni hlutinn leggur sérstaklega til að útlendingi sem misst hefur dvalarrétt skv. 26. gr. frumvarpsins eða verið vísað brott á grundvelli 28. gr. þess verði heimil dvöl hér á landi meðan dómstólar fjalla um mál hans.

Loks er gerð tillaga um breytingar sem varða fórnarlambavernd. Ég og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir höfum ákveðið að skipta með okkur verkum þannig að hún fjalli um þann þátt málsins.

Ég verð að minna á það og taka það fram hér, frú forseti, að það einkennilega gerðist á síðustu dögum þingsins að hæstv. dómsmálaráðherra hafði lagt fram frumvarp um breytingu á hegningarlögum. Við það frumvarp lagði ég fram ýmsar breytingar, m.a. breytingu er varðaði nauðgunarákvæði 104. gr. almennra hegningarlaga. Ég lagði til í breytingartillögum að vændiskaup yrðu gerð refsiverð og að mansal yrði skilgreint í anda samþykkta Sameinuðu þjóðanna. Svo gerist það mjög að óvörum að frumvarp þetta er tekið af dagskrá og fær ekki umfjöllun. Það verður að segjast eins og er að það hefur lítið þokast í réttindamálum kvenna á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar.

Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali sem ég flyt ásamt hv. þm. Paul Nikolov.