135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

meðferð sakamála.

233. mál
[23:40]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um meðferð sakamála.

Í upphafi vil ég geta þess að frumvarp þetta er trúlega með umfangsmestu frumvörpum sem verið hafa til meðferðar á Alþingi í vetur, bæði í greinafjölda talið og eins með tilliti til þess mikilvæga sviðs sem það gildir um. Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum sem nú heita lög um meðferð opinberra mála en munu þegar frumvarpið nær fram að ganga kallast lög um meðferð sakamála.

Í nefndarálitinu er getið um fjölda gesta sem komið hafa á fund nefndarinnar og einnig hefur nefndin farið yfir fjölmargar athugasemdir frá umsagnaraðilum. Hefur nefndin varið miklum tíma til umfjöllunar um frumvarpið, legið yfir einstökum ákvæðum þess og farið vandlega yfir þau bæði í sinn hóp með umsagnaraðilum og ekki síst með fulltrúum réttarfarsnefndar sem lagt hafa gjörva hönd á þá vinnu sem hér birtist.

Frumvarpið á sér langan aðdraganda eins og getið er um í nefndarálitinu — má segja að vinna við það hafi hafist 2003 — og í því felast margar mikilvægar breytingar. Meginefni þess, eða það sem hefur mestar breytingar í för með sér, er breytt skipan ákæruvaldsins. Þær breytingar hafa þann tilgang að styrkja stöðu ákæruvaldsins sem aðila í réttarvörslukerfi okkar, og það er mat allsherjarnefndar að frumvarpið nái þeim tilgangi að styrkja þær mikilvægu stofnanir sem starfa á þessu sviði.

Í nefndarálitinu er farið nokkuð yfir aðrar breytingar sem getið er um í frumvarpinu og mun ég ekki staldra við það heldur vísa til nefndarálitsins sem slíks. Ég ætla að drepa á nokkrar breytingar sem nefndin leggur til en það verður ekki tæmandi talning af minni hálfu og vísa ég til ítarlegs nefndarálits að öðru leyti í því sambandi.

Ég ætla fyrst að nefna að gerð er tillaga um breytingu á 16. gr. þannig að séu dómar eða aðrar úrlausnir í sakamálum birtar opinberlega, svo sem á vefsíðum, verði afmáð þau atriði sem eðlilegt er talið að leynt fari með tilliti til almanna- og einkahagsmuna eða hefðu í för með sér hættu á sakarspjöllum ef þau kæmu til vitundar almennings. Breytingin skýrir sig að mestu sjálf en ég vísa að öðru leyti til nefndarálitsins.

Síðan eru, eins og ég gat um, talsverðar breytingar á III. kafla, þar sem fjallað er um ákæruvaldið. Helsta breytingin sem lögð er til í breytingartillögum nefndarinnar er í því fólgin að héraðssaksóknari, sem gert er ráð fyrir að verði aðalhandhafi ákæruvalds í héraði, skuli aðeins vera einn, en honum til aðstoðar verði varahéraðssaksóknari, saksóknarar og aðrir starfsmenn, samanber það sem getið er um í breytingartillögunum. Það er skýrt að héraðssaksóknari beri ábyrgð á ákvörðunum þeirra sem við embætti hans starfa og eru þessar breytingar til samræmis við ýmsar athugasemdir og eiga að samræmast vel þeirri skipan sem venjulega tíðkast innan stjórnsýslunnar.

Í nefndarálitinu er síðan getið um fleiri breytingar sem telja má tæknilegar og ég ætla ekki að staldra sérstaklega við í frumvarpinu en get komið inn á ef óskað verður eftir síðar í þessari umræðu. Ég ætla þó að nefna breytingu á 3. mgr. 37. gr. þar sem tekið er fram að lögregla geti synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum sakamáls meðan á rannsókn þess stendur ef samskipti við yfirvöld í öðrum löndum standa því í vegi. Þetta er gert vegna þess að hér á landi hafa gilt nokkuð rýmri reglur um aðgang sakbornings að skjölum og öðrum gögnum á rannsóknarstigi en gerist í mörgum nágrannalöndum okkar. Það hefur borið við að erlend yfirvöld hafi verið treg til að láta íslenskri lögreglu eða öðrum rannsóknaraðilum í té slík gögn af ótta við að greiður aðgangur kunni að skaða þarlenda rannsóknarhagsmuni, og við því er brugðist með þessari breytingartillögu.

Lögð er til breyting á 2. mgr. 41. gr. um skyldu til að tilnefna brotaþola réttargæslumann samkvæmt ósk hans. Þessi breyting sem við gerum tillögu um miðar að því að styrkja enn frekar réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis.

Gerð er ákveðin breyting á varnarþingi í sakamálum sem hefur það markmið að gera þau sveigjanlegri en verið hefur. Tekið er á þeirri gagnrýni sem fram kom á frumvarpið frá sumum umsagnaraðilum, að ákvæði stjórnsýslulaga tækju ekki til meðferðar ákæruvalds í sakamálum. Fallist var á í nefndinni að þetta geti verið varhugavert með tilliti til réttaröryggis borgaranna, og eru breytingar gerðar í samræmi við það í tillögum nefndarinnar.

Gerð er lítils háttar breyting á tillögu um lágmarkshlé sem skylt er að gera á skýrslutöku hjá lögreglu eftir að hún hefur staðið yfir í fjórar klukkustundir. Gert er ráð fyrir að þetta hlé verði stytt úr tveimur klukkustundum í eina, samkvæmt tillögu frá Landssambandi lögreglumanna.

Í 89. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu, sem ekki er að öðru leyti kveðið sérstaklega á um í frumvarpinu, gerum við þá breytingu að í stað almennrar heimildar til ríkissaksóknara að setja reglur um slíkar rannsóknaraðferðir verði tekin inn í ákvæðið dæmi um slíkar rannsóknaraðferðir sem áður var að finna í greinargerð með frumvarpinu. Við teljum að með því verði grundvöllur ákvæðisins traustari en tökum jafnframt fram að þar sem ekki sé um tæmandi talningu að ræða verði ekki útilokað að ef upp komi ný tækni eða aðferðir kunni að vera hægt að notast við þær á grundvelli þessarar heimildir. Nefndin leggur einnig til að dómsmálaráðherra setji slíkar reglur að tillögu ríkissaksóknara og teljum við að það styrki enn frekar lagagrundvöllinn undir aðgerðir af þessu tagi.

Við fjöllum um skilyrði gæsluvarðhalds og gerum tillögu um að tekið verði út orðið „sérstaklega“, þegar vísað er til „sterks gruns“ um að sakborningur hafi framið afbrot, það teljum við óþarfa í ljósi reynslunnar.

Við fjöllum um heimildir til að úrskurða í gæsluvarðhald. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að ekki mætti úrskurða sakborning í lengra gæsluvarðhald en fjórar vikur nema nýr dómsúrskurður komi til. Á það hefur verið bent að þetta eigi ekki alls kostar við þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í sakamáli og mál bíður áfrýjunar. Leggjum við því til að gerð verði breyting og undantekning frá þessari reglu þegar svo stendur á, enda hafi sekt ákærða þá oftast nær verið talin sönnuð fyrir héraðsdómi.

Við fjöllum um einangrun í gæsluvarðhaldi og leggjum til að ekki verði heimilað að sakborningur verði í einangrun lengur en í fjórar vikur nema hann sé sakaður um brot sem varðað geti að lögum 10 ára fangelsi eða meira.

Við fjöllum aðeins um farbann og vísum til þess að farbanni hafi verið beitt hér á landi í stað þess að grípa til jafnþungbærs úrræðis og gæsluvarðhalds og rekjum að vegna breyttra aðstæðna hafi verið erfiðara að framfylgja farbanni hin síðari ár. Við leggjum því til að í 1. mgr. 100. gr. frumvarpsins verði tekin upp heimild til handa dómara til að gera það að skilyrði, að kröfu lögreglu eða ákæruvalds, að sakborningur sem sætir farbanni hafi á sér sérstakan búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans og aftra því þannig að hann komist úr landi. Ákvæðið ætti einnig við ef lagt væri fyrir sakborning að halda sig á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis innan lands. Þarna erum við að bregðast við raunhæfum dæmum sem upp hafa komið um það að sakborningar sem úrskurðaðir hafa verið í farbann hafa komist úr landi. Við teljum að með þessu móti sé bent á ákveðna millileið, annars vegar milli einfalds farbanns, ef við getum sagt sem svo, og hins vegar gæsluvarðhalds, sem ætti í þessum tilvikum að draga verulega úr hættunni á því að sakborningar sleppi úr landi.

Við víkjum að fleiri atriðum og ég fer hratt yfir sögu. Við gerum tillögu um að vitni geti verið sektað með úrskurði ef það hefur ekki fullnægt vitnaskyldu.

Við fjöllum um yfirmat og skyldu dómara til þess að verða við kröfu aðila telji hann ástæðu til.

Við víkjum að samkomulagi sem kann að komast á milli brotaþola og sakbornings og leggjum til að falla megi frá saksókn í slíkum tilvikum en breytum orðalagi og nálgun frumvarpsins að þessu leyti.

Við fjöllum um heimildir lögreglustjóra til að gera manni sektir eða ákveða viðurlög fyrir minni háttar brot og tökum út það skilyrði, sem var svipting ökuréttar allt að einu ári, eins og gert var í frumvarpinu. Heimildir lögreglustjóra verða víðtækari að þessu leyti.

Við fjöllum um atriði sem varða réttarhaldið sjálft, m.a. gerum við það að óumdeildum rétti sakbornings að leggja fram greinargerð af sinni hálfu við meðferð máls í héraði, við göngum lengra en frumvarpið gerði að því leyti. Eins kveðum við á um það að ákærða skuli gefinn kostur á að gera stuttar athugasemdir við reifun ákæranda á ákæru við upphaf aðalmeðferðar.

Við leggjum til breytingar á XXVI. kafla frumvarpsins sem fjallar einkum um einkaréttarkröfur sem hafa má uppi í sakamáli. Ég ætla ekki að fara út í það heldur vísa til nefndarálitsins varðandi þær breytingar sem þar er að finna.

Við fjöllum um atriði eins og birtingu héraðsdóms hafi ákærði ekki verið viðstaddur uppkvaðningu dómsins.

Við leggjum til að gildistöku laganna verði frestað til næstu áramóta svo að nægur tími gefist til að kynna efni laganna og vinna að undirbúningi þeirra breytinga á skipan ákæruvaldsins sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Við höfum gert tillögu um sérstakt bráðabirgðaákvæði er taki þegar gildi þar sem gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra skipi í embætti héraðssaksóknara og annarra helstu samstarfsmanna hans áður en lögin komi til framkvæmda til að undirbúa þessar breytingar.

Í nefndarálitinu er að lokum fjallað um nokkur atriði sem hafa verið tekin til umræðu í þessu sambandi í nefndinni og í umsögnum aðila. Við víkjum að hugsanlegu millidómstigi í sakamálum og fjöllum nokkuð um það. Vísum að lokum til þess að nú sé á vegum dómsmálaráðherra starfandi nefnd sem hefur það verkefni að fjalla um milliliðalausa sönnunarfærslu og hvort þörf sé á millidómstigi í sakamálum. Gert er ráð fyrir að þessi nefnd skili áliti í júlímánuði. Allsherjarnefnd telur millidómstigið í sakamálum áhugaverðan kost og tekur fram að vonast sé til að niðurstaða í því máli liggi fyrir sem fyrst.

Við fjölluðum um, eins og ég gat um áðan, skipan ákæruvaldsins og ólík sjónarmið sem voru uppi í því sambandi en teljum að sú lausn sem við leggjum til varðandi héraðssaksóknaraembættið sé ásættanleg fyrir flesta og góð sátt sé komin á um þá niðurstöðu, en tökum fram í nefndarálitinu að auðvitað beri að taka mark á ábendingum um að nægilegt fjármagn verði að fylgja við stofnun nýs embættis héraðssaksóknara og aðrar breytingar á skipan ákæruvaldsins. Leggur nefndin mikla áherslu á að ákæruvaldið almennt verði styrkt, einnig embætti ríkissaksóknara og ákæruþátturinn hjá lögreglustjóra.

Við fjölluðum töluvert um atriði sem hefur verið umrætt undanfarin ár, um skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi hafi hann ekki náð 15 ára aldri, sem sagt skýrslutöku af börnum. Niðurstaða okkar — við erum með ítarlega umfjöllun um það í nefndaráliti, sem ég ætla ekki að fara nánar yfir hér, en við gerum ekki að svo stöddu tillögu um breytingar á lögum að þessu leyti.

Við vekjum hins vegar athygli á tveimur breytingum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og hafa áhrif á þessi atriði og þessa framkvæmd. Annars vegar er í a-lið 1. mgr. 59. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir því að aldursmark í sambandi við yfirheyrslur yfir börnum sé lækkað úr 18 árum í 15 ár þannig að gera má ráð fyrir að í talsvert færri málum en ella verði um að ræða skyldu til að gefa skýrslu fyrir dómi á rannsóknarstigi.

Hins vegar vísum við til 60. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um óformlega skýrslutöku lögreglu af sjónarvottum og öðrum vitnum og bendum á að á grundvelli þessa ákvæðis, samanber 2. mgr. þess, geti lögregla, t.d. í samvinnu við barnaverndaryfirvöld, rætt við barn og undirbúið það fyrir skýrslutöku fyrir dómi. Við teljum að þarna sé um að ræða ákveðna millileið sem rétt sé að skoða hvernig gangi í framkvæmd. Nefndin telur að til greina komi að skoða aðrar leiðir reynist þessar breytingar ekki skila þeim árangri sem að er stefnt. Þá nefnum við að hugsanlega kæmi til greina að kanna hvort unnt væri að auka vægi lögregluskýrslu með einhverju móti en sú útfærsla þarfnast augljóslega talsverðrar yfirlegu.

Að lokum víkjum við að töku lífsýna úr öðrum en sakborningi en leggjum til að frumvarpið standi óbreytt að þessu leyti og vísum til þess að það geti verið mikilvægt við rannsókn sakamála að heimilt verði að skylda aðra en sakborning til að gangast undir lífsýnatöku þó að meginsjónarmiðið sé yfirleitt það að menn geri það með eigin samþykki.

Allsherjarnefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir og fjallað er nánar um í nefndarálitinu og breytingartillögum nefndarinnar.

Karl V. Matthíasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálit allsherjarnefndar skrifa auk þess sem hér stendur Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Atli Gíslason, með fyrirvara, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir, Ólöf Nordal og Jón Magnússon.