135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[00:02]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðfesta samvist í nefndaráliti frá allsherjarnefnd. Í nefndarálitinu er gert grein fyrir þeim gestum sem við fengum á fundi en auk þess fengum við umsagnir frá helstu aðilum sem um þessi mál hafa fjallað.

Með frumvarpinu er lagt til að prestum og forstöðumönnum trúfélaga verði heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra. Gengið er út frá því að réttur þessara vígslumanna til þess að þeir hafi rétt til þess að ákveða hvort þeir staðfesti samvist og sá réttur verði verði virtur en á því er byggt að þeir muni ekki synja um slíka staðfestingu af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar.

Við fjölluðum um nokkrar athugasemdir sem fram komu vegna 19. og 20. gr. hjúskaparlaga, annars vegar þar sem utanríkisráðuneyti er veitt heimild til að setja reglur um heimild starfsmanna íslenskra sendiráða til að framkvæma hjónavígslu og hins vegar um heimild til að gera samning við erlent ríki um að vígslumenn þess geti framkvæmt hjónavígslu hér á landi þegar annað hjónaefna er ríkisborgari hlutaðeigandi ríkis.

Athugasemdir komu fram m.a. frá Samtökunum '78 um að eðlilegt væri að búa til sambærilegar heimildir fyrir staðfesta samvist. Það var niðurstaða nefndarinnar eftir athugun á málinu að þessum heimildum í hjúskaparlögunum hefði aldrei verið beitt, þ.e. að hvorki hefðu verið settar reglur á grundvelli 19. gr. hjúskaparlaga né gerðir samningar á grundvelli 20. gr. laganna. Það var því mat okkar að ástæðulaust væri að fella inn í lög um staðfesta samvist ákvæði sem væru þannig merkingarlaus í ljósi réttarstöðunnar í dag. Nefndin telur eðlilegra að framangreind ákvæði verði endurskoðuð eða jafnvel felld brott við heildarendurskoðun hjúskaparlaganna.

Nefndin gerir tillögu um eina breytingu á grundvelli þeirra athugasemda sem fram komu. Leggur nefndin til að við 2. mgr. 8. gr. laga um staðfesta samvist bætist ákvæði þess efnis að prestar og forstöðumenn trúfélaga geti leitað um sættir við slit staðfestrar samvistar og skýrir sú breyting sig sjálf.

Nefndin leggur áherslu á að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref í þá átt að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra og með frumvarpinu sé fylgt eftir þeim stefnumiðum sem lágu til grundvallar lögum nr. 65/2006, um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra. Allsherjarnefnd telur eðlilegt að næsta skref í þessum efnum verði að endurskoða hjúskaparlög með það að markmiði að fella saman í einn lagabálk lagaákvæði um hjúskap og staðfesta samvist og leggjum við áherslu á að sú endurskoðun hefjist hið fyrsta.

Nefndin leggur til að með þessari breytingu verði frumvarpið samþykkt.

Atli Gíslason og Jón Magnússon skrifuðu undir nefndarálitið með fyrirvara. Karl V. Matthíasson var fjarverandi.

Undir nefndarálitið rituðu auk mín Ágúst Ólafur Ágústsson, Atli Gíslason, Herdís Þórðardóttir, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir, Ólöf Nordal og Jón Magnússon, með fyrirvara eins og áður er getið.